Talið er að meira en 100 flóttamenn hafi verið um borð í spænska skipinu í morgun en ítölsk yfirvöld hafa neitað að hleypa fólkinu í land í nærri þrjár vikur þrátt fyrir að næstum þrjátíu börn og þeir sem voru orðnir veikir höfðu verið fluttir í landi.
Sjá einnig: 27 unglingar á flótta fengu að fara í land á Ítalíu
Aðstæðurnar um borð í skipinu eru sagðar hafa verið mjög slæmar og til marks um það reyndu í kring um tíu flóttamannanna að synda í land en ítalska landhelgisgæslan náði þeim áður en þeir komust mjög langt.
Luigi Patronaggio, saksóknari í Agrigento, gaf fyrirskipun um að bátnum yrði siglt í höfn eftir að hann heimsótti bátinn seinni partinn á þriðjudag. Heimildarmaður fréttastofu AFP segir tilskipunina hafa verið gefna vegna erfiðra aðstæðna um borð.
Stofnandi Open Arms fagnaði í dag ákvörðuninni og skrifaði á Twitter: „Eftir nítján daga fáum við að fara í land í Lampedusa.“
Tras 19 días, desembarcaremos hoy en Lampedusa. Se incautará el barco temporalmente, pero es un costo que @openarms_fund asume para asegurar que las personas a bordo puedan ser atendidas. Consideramos indispensable priorizar su salud y seguridad en esta emergencia humanitaria. pic.twitter.com/mXePPemObz
— Oscar Camps (@campsoscar) August 20, 2019
Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur verið strangur þegar kemur að flóttafólki og innflytjendum og var búinn að loka öllum höfnum fyrir þeim. Hann tísti fyrr í dag að eina leiðin til að stöðva það að Ítalía yrði aftur „flóttamannabúðir Evrópu“ væri að vera strangur.
La linea della fermezza è l'unico modo per evitare che l'Italia torni ad essere il campo profughi d'Europa, come dimostrato anche in queste ore con la nava Ong spagnola dei finti malati e dei finti minori. pic.twitter.com/bK9Bpv71f3
— Matteo Salvini (@matteosalvinimi) August 20, 2019