Enski boltinn

Harkaleg deila Carragher og umboðsmanns: „Viltu líka ráðleggja hvernig eigi að hrækja á fólk út um bílrúðu?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carragher svaraði umboðsmanni Bobbys Duncan fullum hálsi.
Carragher svaraði umboðsmanni Bobbys Duncan fullum hálsi. vísir/getty
Jamie Carragher og Saif Rubie, umboðsmaður Bobbys Duncan, 18 ára leikmanns Liverpool, fóru í hár saman á Twitter í dag.

Forsaga málsins er sú að Liverpool vill ekki leyfa Duncan að fara frá félaginu. Fiorentina á Ítalíu og Nordsjælland í Danmörku gerðu bæði tilboð í strákinn en Liverpool hafnaði þeim.

Í yfirlýsingu sem Rubie sendi frá sér í dag segir hann að málið hafi haft mikil áhrif á andlega heilsu Duncans og hann sakar Liverpool um að hafa eyðilagt líf stráksins. Hann hafi t.a.m. ekki farið út úr húsi í fjóra daga og Rubie segir að Duncan mæti aldrei aftur á æfingu hjá Liverpool. Rubie gagnrýndi Michael Edwards, yfirmann knattspyrnumála hjá Liverpool, harkalega fyrir hans framgöngu í máli Duncans.



Carragher tjáði sig um yfirlýsingu Rubies og gaf henni ekki háa einkunn.

„Ég þekki Bobby og fjölskyldu hans vel. Hann er ungur og á þeim aldri viljum við fá allt strax. Hann lék með aðalliðinu á undirbúningstímabilinu sem er frábær byrjun. Hann ætti að reyna að bæta sig á þessu tímabili og kannski komast á bekkinn í deildabikarnum. Þú ættir að ráðleggja honum það,“ skrifaði Carragher á Twitter og lét mynd af trúð fylgja með færslunni.



Rubie svaraði um hæl og rifjaði upp atvik frá því í mars í fyrra þegar Carragher hrækti á stelpu út um bílrúðu. Í kjölfarið fór Carragher í leyfi frá störfum á Sky Sports.

„Viltu líka ráðleggja hvernig eigi að hrækja á fólk út um bílrúðu? Þú ert síðasta manneskjan sem ætti að segja eitthvað og þú veist ekkert hvað gengur á bak við tjöldin. Einbeittu þér að þínu starfi og ég einbeiti mér að mínu stafi,“ skrifaði Rubie.



„Ég gerði stór mistök og skaðaði mig meira en nokkurn annan. Þú hefur gert stór mistök, ert að skaða sjálfan þig og það sem mikilvægara er, ferils ungs leikmanns. Það er líka vandræðalegt að draga nafn Stevens Gerrard inn í umræðuna,“ skrifaði Carragher en Duncan er frændi Gerrards.



Carragher og Rubie héldu ritdeilu sinni áfram en hana má sjá hér fyrir neðan. Carragher hvatti Duncan m.a. til að finna sér nýjan umboðsmann.

Duncan, sem er fæddur árið 2001, kom til Liverpool frá Manchester City í fyrra. Hann lék nokkra leiki með aðalliðinu á undirbúningstímabilinu.

Á síðasta tímabili lék Duncan með unglinga- og varaliði Liverpool. Hann hefur einnig leikið með yngri landsliðum Englands.

Umræddur Bobby Duncan sem Liverpool vill ekki selja eða lána.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×