Skoðun

Gömuldönsk

Davíð Þorláksson skrifar
Áróðurinn gegn 3. orkupakkanum heldur áfram. Andstæðingar hans eru fyrir löngu orðnir rökþrota þannig að nú beinast spjótin að EES-samningnum, sem var líklega skotmarkið allan tímann. Hið nýjasta er að EES-samningurinn leiði til þessa að við þurfum að lögfesta alls kyns ólýðræðisleg ólög.

Staðreyndin er hins vegar að EES-samningurinn hefur haft jákvæð áhrif á íslenska löggjöf. Stjórnsýslan okkar er fámenn og hefur ekki sömu burði til að undirbúa löggjöf frá grunni eins og í fjölmennari löndum. Fyrir EES-samninginn voru íslensk lög aðallega þýdd gömul dönsk lög. Samningurinn hefur fært okkur lög sem hafa falið í sér réttarbót á ýmsum sviðum.

Án EES værum við líklega enn með fjármagnshöft. Ekki þau síðustu, heldur þau þar á undan. Við værum ekki með reglur um þátttöku ríkisins í atvinnustarfsemi eða skyldu hins opinbera til að bjóða út verkefni. Þá auðveldar það að samræmi sé í löggjöf milli Íslands og annarra Evrópulanda íslenskum fyrirtækjum að selja vöru og þjónustu í Evrópu og öfugt. Og já, orkupakkarnir hafa búið til eðlilegan orkumarkað hér með aðskilnaði á milli þeirra þátta þar sem er samkeppni og einokun.

Vera okkar í EES er ekki fullkomin og á endanum snýst hún um hagsmunamat. Við þurfum að vega kostina gegn göllunum og ef það kemur einhvern tímann að því að gallarnir verði kostunum yfirsterkari þá getum við gengið úr samstarfinu. Í ljósi þess að EES hefur ekki bara fært okkur betri löggjöf heldur líka betri lífsgæði allra landsmanna þá er langt í að það gerist.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×