Hitabeltisstormurinn Barry sem berst nú að ströndum Louisiana hefur náð styrk fellibyls en búist er við að hann skelli að ströndum ríkisins seinna í dag. Þetta kemur fram á vef BBC.
Milljónir íbúa hafa búið sig undir Barry síðustu daga en Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi þar. Hraði Barry hefur aukist síðustu daga og í dag mældist stöðugur vindhraði í fellibylnum yfir 33 metrum á sekúndu og flokkast hann því sem fyrsta stigs fellibylur.
