Kona á þrítugsaldri og maður á fertugsaldri voru handtekin í gærkvöldi í hjólhýsi á Skagaströnd en lögregla þurfti húsleitarheimild til að komast inn í hjólhýsið og handtaka fólkið þar sem þau sinntu ekki fyrirmælum lögreglu um að opna.
Vilhjálmur Stefánsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir að fólkið hafi ekki verið vel áttað. Maðurinn streittist á móti handtöku og þá úðaði parið piparúða á lögreglu.
Við leit fundust einhverjir tugir gramma af fíkniefnum sem lögregla telur að séu amfetamín og kókaín. Grunur leikur á að efnin hafi verið ætluð til sölu.
Lögreglan kom fyrst á staðinn um klukkan sex í gærkvöldi en komst svo inn í hjólhýsið um klukkan 22.
„Við fengum upplýsingar um það að bíl hefði verið stolið í Reykjavík og hann væri jafnvel á Skagaströnd. Svo sást hann á Skagaströnd í gær og þá var bara keyrt á málið. Þau læstu sig inni í hjólhýsinu og hleyptu okkur ekki inn þrátt fyrir að við værum búin að berja þar í nokkra klukkutíma. Við fengum svo heimild til þess að fara inn, húsleitarheimild hjá héraðsdómi Norðurlands vestra. Þau voru þarna inni í hjólhýsinu og við þurftum að ryðjast inn. Þau úðuðu á móti okkur með piparúða en við héldum að það væri gas,“ segir Vilhjálmur.
Lögreglan braut því rúður á hjólhýsinu af ótta við að það yrði gassprenging. Vilhjálmur segir að ekki hafi enn verið tekin skýrsla af fólkinu en að það verði gert síðar í dag.
Þau eru grunuð um þjófnað en ætlað þýfi fannst í hjólhýsinu. Þá eru þau grunuð um vopnalagabrot og brot gegn valdstjórninni. Að auki fundust fíkniefni eins og áður segir og tæki á og áhöld til fíkniefnaneyslu.
Læstu sig inni í hjólhýsi og úðuðu svo á lögreglu

Tengdar fréttir

Beittu táragasi gegn lögreglumönnum
Tveir voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar á Norðurlandi vestra í kvöld eftir að lögreglumenn framkvæmdu leit í hjólhýsi og bifreið. Við leitina fannst töluvert magn ætlaðrar fíkniefna.