Leikarinn Bradley Cooper og fyrirsætan Irina Shayk hafa gert óformlegt samkomulag um forræði dóttur sinnar, en parið sleit sambandi sínu í síðasta mánuði.
Samkvæmt heimildum bandaríska slúðurmiðilsins TMZ hefur parið fyrrverandi samþykkt að búa í sömu borg, New York, og deila forræði yfir tveggja ára dóttur sinni, Lea De Seine Shayk Cooper, jafnt á milli sín.
TMZ heldur því einnig fram að samkomulag Cooper og Shayk sé hvergi til á rituðu formi, heldur sé samkomulagið munnlegt. Þetta sé til marks um að parið treysti hvort öðru til þess að halda samkomulagið í heiðri.
Sambandsslit þeirra Shayk og Cooper þóttu stórar fréttir í Hollywood en áður en parið hætti saman var á kreiki orðrómur þess efnis að Cooper og Lady Gaga væru að gera hosur sínar grænar fyrir hvort öðru. Orsakaðist orðrómurinn af því að mörgum þótti neista á milli þeirra tveggja í myndinni A Star is Born og ýmsu kynningarefni í kringum þá mynd. Sambandsslit Cooper og Shayk voru ekki til þess að draga úr hávaða þess orðsóms.
