Skoðun

Hvammsvirkjun

Edda Pálsdóttir skrifar
Í morgun vaknaði ég við að sólin skein inn um gluggann hjá mér. Ég gekk út á hlað og teygaði að mér tæra loftið sem er komið með örlítið haustbragð. Náttúran og dýrin voru að spila fyrir mig yndislega sinfóníu þar sem ég stóð á hlaðinu og nuddaði stírurnar úr augunum. Fuglarnir léku laglínuna en frýs hrossa og jarm kinda settu einnig sinn svip á lagið. Kjölfestan var svo þungur niður Þjórsár sem heyrist í fjarska. Afi minn sem var bóndi á þessum fallega stað, Hamarsheiði í Skeiða-og Gnúpverjahreppi, hlustaði oft á árniðinn til að spá fyrir um hvernig veðrið yrði þann daginn.

Þegar ég er nægilega vöknuð legg ég af stað upp í hestagirðingu að bjóða gullunum mínum góðan daginn. Gangan er stutt en aðeins á fótinn. Við hvert skref fer að sjást betur og betur í fjalladrottninguna Heklu og loks sést hvar jökuláin Þjórsá breiðir úr sér á fallegum áreyrum neðan við bæinn Fossnes. Ég er nú hvorki skáldmælt né trúuð en einhvern veginn finnst mér orð Halldórs Laxness lýsa þessu best, mér leið eins og ég hefði fyllst kraftbirtingarhljómi guðdómsins við útsýnið sem bar fyrir augun. Ég settist niður og naut þess einfaldlega að vera til.

Þessa tilfinningu þekkja þeir sem komið hafa á staðinn en hún Jóhanna Jóhannsdóttir í Haga lýsti svona dögum með þeim orðum að fegurðin væri algjör.

Þar sem ég sat í röku grasinu, andaði að mér fjallaloftinu og klappaði folaldinu hennar Hörpu minnar læddust að mér óþægilegar hugsanir. Þessum gullfallega stað er nefnilega veruleg hætta búin vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í Þjórsá. Ég hafði verið á íbúafundi kvöldið áður þar sem rætt var Aðalskipulag Skeiða-og Gnúpverjahrepps. Þar lýstu margir viðstaddir yfir andstöðu við Hvammsvirkjun og hvöttu sveitarstjórn til að neita Landsvirkjun um framkvæmdaleyfi.  

Margir íbúar í Skeiða-og Gnúpverjahreppi hafa barist ötullega gegn fyrirhugaðri Hvammsvirkjun en virkjunin hefur hangið eins og mara yfir samfélaginu í hartnær tvo áratugi. Ég sjálf hef tekið þátt í baráttunni undanfarin ár. Það á að heita að við Íslendingar búum í lýðræðisríki en eftir að hafa staðið í stappi vegna virkjunarinnar og reynt að láta rödd okkar sem erum á móti henni heyrast verð ég að setja mínar efasemdir við það. Við höfum rætt ítrekað við sveitarstjórn, farið á fund umhverfisráðherra, rætt við fulltrúa Umhverfis-og samgöngunefndar og svo mætti lengi telja.

Það er sama við hvern er rætt, hver bendir á annan, engin axlar ábyrgð á málinu en benda á að hægt sé að senda inn athugasemdir til Skipulagsstofnunar. Eftir að hafa kynnt mér gaumgæfilega allar skýrslur, sem sennilega slaga í þúsund blaðsíður í heildina, sendi ég persónulegar athugasemdir og vann í félagi við aðra stjórnarmenn athugasemdir fyrir hönd Gjálpar, sem er félag um atvinnuuppbyggingu við Þjórsá.

Félagið Gjálp hefur sett sig ítarlega inn í málið og komist að þeirri niðurstöðu að Hvammsvirkjun mun ekki skapa nein störf fyrir íbúa í Skeiða-og Gnúpverjahreppi heldur þvert á móti skerða möguleika þeirra til atvinnuuppbyggingar og hafa verulega neikvæð samfélagsleg áhrif. Við þetta má bæta að fjársafn Gnúpverja hefur í marga áratugi verið rekið niður með farvegi Þjórsár þar sem uppistöðulónið mun standa. Myndin á hundraðkrónu seðlinum gamla sýnir einmitt fjallsafnið koma niður Bringu sem er rétt ofan við fyrirhugaða virkjun. Með lóninu myndi því ómetanlegar menningarminjar fara undir vatn. Það yrði varla svipur hjá sjón að ríða á móti fjallsafninu en göngur og réttir eru í huga margra einn skemmtilegasti og mikilvægasti viðburður ársins.

Eftir að hafa skilað inn athugasemdum sé ég stundum fyrir mér risavaxið skrifstofutröll sem situr hlæjandi á hækjum sér og skeinir sér á athugasemdunum. Ég veit auðvitað að þetta er ekki rétt en hins vegar berast nánast aldrei svör við athugasemdunum og svo er Skipulagsstofnun í raun alveg valdalaus því hún gefur einungis umsögn um málið en sveitarstjórn ræður síðan alfarið hvort af framkvæmdinni verður alveg óháð áliti Skipulagsstofnunar. Svona merkileg er því leiðin sem við höfum til að láta í okkur heyra: lesa endalausar skýrslur og skila athugasemdum til valdalausrar stofnunar. Þessu til viðbótar má nefna að það er verulega umdeilanlegt hvort það sé yfir höfuð þörf á þessari raforku. Á fundi sveitarstjórnar síðastliðið haust sagði verkefnisstjóri Hvammsvirkjunar að áformað væri að rafmagn úr virkjuninni yrði notað í Kísilver. Það er þyngra en tárum taki ef rétt reynist. Þegar spurt er að þessu nú er svarið einfaldlega að raforkan fari inn á dreifikerið og því sé ekki hægt að segja í hvað orkan fari. Þetta er ekkert svar og í besta falli verulega lúaleg undanbrögð.

Ég fyllist vanmætti og hugsa með mér hvað það væri nú gott að vera bara alveg sama. Skvetta, tveggja vetra gamla tryppið mitt, kemur röltandi til mín og bítur í jakkaermina mína. Ég ranka við mér, lít upp og við blasir stórkostlegt útsýni yfir Þjórsá og Heklu. Mér er nefnilega ekki sama og ég mun ekki gefast upp. Það er skylda mín að leggja mitt að mörkum til þess að allir fái að njóta þessa fallega staðar um ókomna tíð, að íbúar Reykjanesbæjar geti dregið andann í ómenguðu lofti og til að Skeiða-og Gnúpverjahreppur blómstri og dafni.

Ég klappa Skvettu og strengi þess heit að þegar hún verður orðin tamin munum við fylgja fjallsafni Gnúpverja meðfram óspilltum farvegi Þjórsár.

Greinin birtist fyrst í Stundinni 1. september 2017 en er nú endurbirt í tilefni Þjórshátíðar 2019.

Síðan 2017 hefur Skipulagsstofnun skilað af sér umræddu áliti um Hvammsvirkjun. Í álitinu, sem út kom árið 2018, segir að virkjunin myndi hafa „verulega neikvæð“ áhrif á landslag í ljósi þess að umfangsmiklu svæði verður raskað og mjög margir verða fyrir neikvæðum áhrifum vegna ásýndar- og yfirbragðsbreytinga. Í áliti Skipulagsstofnunar segir einnig að neikvæð áhrif af Hvammsvirkjun verði „óafturkræf“ og að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa „talsverð neikvæð“ áhrif á útivist og ferðaþjónustu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×