Skoðun

Barist fyrir norskum hagsmunum

Jón Kaldal skrifar
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) heyja nú harða baráttu fyrir því að sjókvía­eldisfyrirtækin á Íslandi greiði sem allra minnst fyrir nýtingu hafsvæða í eigu þjóðarinnar. Helst vilja samtökin að þau greiði ekki neitt, eins og má til dæmis sjá í nýlegri umsögn þeirra til Alþingis vegna fyrirhugaðrar lagasetningar. Í þessari hagsmunabaráttu gengur SFS erinda moldríkra norskra laxeldisrisafyrirtækja sem eiga sjókvíaeldisfyrirtækin hér á landi að langstærstu leyti.

Ólíkt því sem gildir um íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru engar takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila á fiskeldisfyrirtækjum. Þegar losað var um þær takmarkanir í atvinnurekstri fyrir nokkrum árum komu fram ábendingar um mikilvægi þess að verja íslenska hagsmuni með því að festa í lög ramma um nýtingu auðlinda. Benti meðal annars Viðskiptaráð Íslands á þetta grundvallarmál í aðdraganda þess að lögunum var breytt. Mikilvægt er að átta sig á því að málið snýst um sanngjarnt gjald fyrir notkun á afmörkuðum hafsvæðum sem tilheyra sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þetta eru takmörkuð og mjög eftirsótt gæði sem hafa fyrir vikið ákveðið verðgildi. Tillaga SFS um að útdeila þessum verðmætum án þess að eigendur þeirra, íslenska þjóðin, fái endurgjald nær engri átt.

Af hverju á að gefa norskum risafyrirtækjum þessi afnot hér? Norðmenn hafa ekki innheimt auðlindagjald en þar fær þjóðin hins vegar greiddar háar upphæðir fyrir ný leyfi. Á uppboði norskra stjórnvalda í fyrrasumar var lágmarksverð 1,7 milljónir íslenskra króna fyrir hvert tonn í sjókvía­eldi og fór hæst í rúmlega þrjár milljónir króna. Hér kosta ný leyfi ekki neitt.

Ef norsku fyrirtækin hefðu þurft að kaupa þessi leyfi á heimamarkaði hefðu þau þurft að greiða 100 til 180 milljarða íslenskra króna fyrir sambærilegt magn og stjórnvöld hafa deilt út frítt hér. Eignarhlutar í íslenskum sjókvía­eldisfyrirtækum ganga nú þegar kaupum og sölum fyrir feikilega háar upphæðir. Söluvaran er fyrst og fremst afnot af sameign þjóðarinnar, sem fær hins vegar ekkert fyrir sinn snúð, ef farið verður að vilja SFS.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×