Þingfundur stóð til klukkan 00:45 í nótt á Alþingi og fór mesta púðrið í að ræða breytingar á fjármálastefnunni til ársins 2022.
Umræður um þriðja orkupakkann, þar sem Miðflokksmenn hafa beitt málþófi, komust ekki á dagskrá í gær en í stað þess voru fjölmörg mál afgreidd, þar á meðal heilbrigðisstefna til ársins 2030 og ný umferðarlög gengu til þriðju umræðu.
Breytingar á fjármálastefnunni voru afgreiddar til síðari umræðu en þingfundur hefst að nýju klukkan tíu.
Þar eru 44 mál á dagskrá og er fyrsta mál að loknum dagskrárliðnum störf þingsins frumvarp Ásmundar Einar Daðasonar, félagsmálaráðherra, um breytingar á almannatryggingakerfinu. Þriðji orkupakkinn er svo áttunda mál á dagskrá.
