Meirihluti landsmanna styður 22 vikna viðmið á þungunarrofi samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið og frettablaðið.is.
Alls segjast 50,6 prósent vera hlynnt því að heimila þungunarrof til loka 22. viku meðgöngu. 34,3 prósent eru andvíg og 15,1 prósent hvorki hlynnt né andvígt.
Málið var mjög umdeilt þegar frumvarpið kom til atkvæðagreiðslu á þinginu í gær. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að um væri að ræða löngu tímabæra breytingu sem snúi að öryggi og frelsi kvenna.

Fleiri Sjálfstæðismenn settu sig upp á móti 22. vikna viðmiðinu þó svo að þeir styddu frumvarpið að öðru leyti. Breytingartillaga Páls Magnússonar um að færa viðmiðunartímann frá 22. viku til 20. viku var felld. Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, fjórir greiddu atkvæði með, tveir sátu hjá og tveir voru fjarverandi.
Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins greiddu ekki atkvæði með frumvarpinu. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sagði hættu á að hópar mynduðust til að berjast fyrir breytingum lögunum. Var hann einn af nokkrum þingmönnum sem sögðu að þörf væri á frekari umræðu um málið þar sem mörg sjónarmið tækjust á um viðkvæmt málefni.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, kannaðist ekki við það. Hún hefði lengi tekið þátt í samfélagsumræðu um sjálfsákvörðunarrétt kvenna, heimild þeirra til þungunarrofs og mörk lífs og dauða.
Greinilegur kynslóðamunur er á afstöðu til málsins. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar er yfirgnæfandi meirihluti yngstu aldurshópanna hlynntur því að þungunarrof verði heimilað til loka 22. viku meðgöngu. Dæmið snýst svo við þegar litið er til elsta aldurshópsins.
Konur eru hlynntari 22 vikna viðmiðinu en karlar. 58 prósent kvenna eru hlynnt, 32 prósent andvíg og ellefu prósent hvorki né. Meðal karla eru 44 prósent hlynnt, 37 prósent andvíg og 20 prósent hvorki né.
Þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins hlynntari 22 vikna viðmiðinu en íbúar á landsbyggðinni. 57 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu er hlynnt, 30 prósent andvíg og 13 prósent hvorki né. 38 prósent íbúa á landsbyggðinni eru hlynnt viðmiðinu, 43 prósent andvíg og 19 prósent hvorki né.
Könnun Zenter rannsókna var netkönnun framkvæmd 10. – 13. maí síðastliðinn. Alls voru tvö þúsund manns í úrtakinu og var svarhlutfall 50 prósent. Af þeim sem svöruðu tóku rúmlega 90 prósent afstöðu til spurningarinnar.