Þrjátíu og þrír voru um borð í rútunni sem valt og hafnaði á hliðinni utan Suðurlandsvegar nærri Hofi í Öræfum um klukkan þrjú í dag. Auk bílstjóra frá íslensku rútufyrirtæki var hópur kínverskra ferðamanna um borð.
Fjórir sem slösuðust mest voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalanna í Fossvogi. Þegar hún lenti um klukkan hálf sjö í kvöld sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, að honum skildist að fólkið væri með meðvitund.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá þegar þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með fjóra slasaða í Fossvogi í kvöld.
„Það náðist að koma þeim undan rútunni, meðal annars með aðstoð landbúnaðartækja af bæjum í nágrenninu, traktors með ámoksturstæki. Það voru heimamenn sem komu til bjargar þar,“ segir Grímur.
Þyrla dansks varðskips sem er statt í Reykjavíkurhöfn var einnig fengin til aðstoðar. Grímur segir að hún hafi flutt einn slasaðan einstakling til Reykjavíkur í kvöld.
Sjúkraflugvél Mýflugs flaug með tíu minna slasaða frá Hafnar til Selfoss til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Vélin lenti þar nú um klukkan átta í kvöld, að sögn Gríms. Alls verða sextán úr rútunni fluttir á Selfoss. TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, flýgur með ellefu manns á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Í tilkynningu HSU kemur fram að þrír verði fluttir á Landspítalann í Fossvogi til viðbótar við þá fjóra sem þyrla Gæslunnar flutti í kvöld. Mikill viðbúnaður hafi verið á sjúkrahúsinu á Selfossi en vel hafi gengið að kalla út lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og sjúkraflutningamenn til að taka þátt í aðgerðum.
Að neðan má sjá myndir frá slysstað.

Fréttin hefur verið uppfærð.