Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Borås töpuðu fyrsta leik í úrslitaviðureignar sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld.
Fyrsti leikurinn fór fram á heimavelli deildarmeistaranna í Södertälje Kings en efstu tvö liðin í deildinni mætast í úrslitunum.
Jakob var ekki í byrjunarliði Borås en spilaði rúmar tuttugu mínútur. Hann náði ekki að koma stigi á töfluna og var 0 af 6 í þriggja stiga skotum.
Leikurinn var jafn í upphafi en í byrjun þriðja leikhluta náðu heimamenn í Södertälje að koma sér upp nærri tuttugu stiga forskoti og þar lögðu þeir grunninn að sigrinum.
Þegar upp var staðið var staðan 92-81 fyrir Södertälje.
Næsti leikur liðanna er á sunnudaginn en vinna þarf fjóra leiki til þess að standa uppi sem Svíþjóðarmeistari.
