Skoðun

Lög tónlistarmanns

Haukur Örn Birgisson skrifar
Íslenskum stjórnmálamönnum þykir óskaplega vænt um okkur hin og þeir gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda okkur frá því að fara okkur að voða. Þær skipta eflaust hundruðum, reglurnar sem þeir hafa sett, sem ætlað er að fyrirbyggja vanhugsaðar ákvarðanir í okkar daglega lífi.

Ein birtingarmynd þessarar væntumþykju snýr að lögum sem ætlað er banna „duldar auglýsingar“ m.a. á samfélagsmiðlum. Neytendastofa passar svo upp á að áhrifavaldarnir okkar fari að lögunum, með tilheyrandi kostnaði og vinnustundum starfsmanna stofnunarinnar.

Fyrr í mánuðinum birti Neytendastofa ákvörðun sína í máli tónlistarmannsins Emmsjé Gauta. Emmsjé hafði verið sóttur til saka fyrir að birta ítrekað myndir af sér á Instagram fyrir framan Audi-bifreið, væntanlega undir því yfirskini að um væri að ræða hans eigin fararskjóta. Nú hefur Emmsjé Gauta verið bannað að birta slíkar myndir, að viðlögðum sektum, ef hann tekur ekki nógu skýrt fram að myndirnar séu kostaðar af Heklu.

Hugur manns er vissulega hjá aðdáendum Emmsjé Gauta, sem sitja líklegast flestir núna í glænýjum Audi Q5 jeppa, sem þeir keyptu á átta milljónir króna. Maður getur rétt ímyndað sér vonbrigðin í svip þeirra þegar þeir lásu um ákvörðun Neytendastofu og áttuðu sig á því að áhrifavaldur þeirra hafði fengið greitt fyrir að keyra um á Audi í stað Toyotu.

Það felst mikil huggun í því að hugsa til þess að hér á landi séu settar reglur sem koma í veg fyrir að fullorðið fólk taki heimskulegar ákvarðanir. Reglur sem ganga út frá því að fólk geti ekki sjálft áttað sig á ástæðu þess að bifreiðar, skór, föt eða veitingahús svokallaðra áhrifavalda rata inn á hverja einustu Instagram-mynd þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×