Innlent

Mikill viðbúnaður vegna elds í bílakjallara við Sléttuveg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn voru nýmættir á staðinn um tíuleytið í morgun.
Slökkviliðsmenn voru nýmættir á staðinn um tíuleytið í morgun. Skjáskot/Stöð 2
Mikill viðbúnaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu er nú við Sléttuveg 7 í Fossvogi vegna elds í bílakjallara. Allt tiltækt lið slökkviliðsins var sent á staðinn en verið er að rýma húsið vegna mikils reyks.

Samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra var mikill reykur í bílakjallaranum þegar slökkvilið bar að garði og lagði hann upp í stigagang hússins. Reykræsting hófst þó strax og tókst að koma í veg fyrir að reykurinn kæmist upp til íbúanna, að sögn varðstjóra. 

Þá er búið að boða Rauða krossinn út auk strætisvagns fyrir íbúa að dvelja í á meðan slökkvilið vinnur á vettvangi. Útkallið barst um tíuleytið í morgun og gert er ráð fyrir að slökkvistarf haldi áfram fram eftir degi.

Uppfært klukkan 11:17:

Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá dekkjum og rusli í bílakjallaranum, sem er í húsnæði á vegum Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg. Slökkviliðið gefur ekki upp hvort grunur sé um íkveikju. Slökkvistarf er enn í gangi á vettvangi.

Uppfært klukkan 14:31:

Allri vinnu slökkviliðs er lokið við Sléttuveg og hefur vettvangur verið afhentur lögreglu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Eldurinn kviknaði í fjölbýlishúsi Öryrkjabandalagsins við Sléttuveg.Skjáskot/Stöð 2



Fleiri fréttir

Sjá meira


×