Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði á fimmta tímanum í dag afskipti af fimm ungmennum í bílakjallara verslunar í Kópavogi vegna neyslu og vörslu fíkniefna. Í dagbók lögreglu segir að málið hafi verið afgreitt með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til barnaverndaryfirvalda.
Þá var lögreglu tilkynnt um sofandi ungabarn sem skilið hafði verið eftir eitt í bifreið í miðbænum á fimmta tímanum. Þegar lögregla mætti á vettvang var faðir barnsins að aka brott á bílnum, með barnið meðferðis, en lögregla ræddi við hann. Sagðist faðirinn hafa verið frá í stutta stund meðan hann fór í hús í grenndinni. Í dagbók lögreglu segir að ekkert hafi virst ama að barninu en málið verður þó tilkynnt til Barnaverndar.
Um klukkan eitt eftir hádegi var lögreglu svo tilkynnt um þjófnað og eignaspjöll í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Þar höfðu óprúttnir aðilar borað göt á eldsneytisgeyma þriggja bifreiða og stolið bensíni.
Þá barst lögreglu tilkynnt um innbrot á heimili í Grafarvogi á sjöunda tímanum. Þar hafði þjófur spennt upp glugga, farið inn og stolið verðmætum.
Lögregla stöðvaði einnig nokkra ökumenn síðdegis í dag vegna gruns um ölvunar- og eða fíkniefnaakstur. Sumir þeirra óku jafnframt réttindalausir og reyndist einn aðeins 16 ára. Sá hafði því aldrei öðlast ökuréttindi.
Ungmennahópur gripinn við fíkniefnaneyslu í bílakjallara
Kristín Ólafsdóttir skrifar
