Að minnsta kosti fimm manns hafa farist eftir að Kenneth gekk á land við Delgado-höfða á norðurströnd Mósambík á fimmtudagskvöld. Fjöldi hverfa í borginni Pemba þar sem um 200.000 manns búa eru sögð á floti. Hætta er á frekari flóðum og aurskriðum á svæðinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Fulltrúar mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna segja að gríðarleg eyðilegging hafi átt sér stað víða á Delgado-höfða. Sums staðar nái flóðvatnið manneskju upp í mittishæð.
Um 900 manns fórust þegar annar öflugur fellibylur gekk yfir Mósambík, Malaví og Simbabve í mars.