Ólík rekstrarform í heilbrigðisþjónustu voru til umræðu í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Ólafur Þór Gunnarsson, læknir og þingmaður Vinstri grænna sagðist ekki líta svo á að um hugmyndafræðilegan ágreining sé að ræða.
„Það er ágætis sátt um það að vera með þessa blöndu af einkarekstri og opinberum rekstri í heilbrigðiskerfinu. Einkarekstur telur einhvers staðar á bilinu 25-26% af heildarkerfinu okkar og það hefur verið ágætis sátt um þetta. Ég held að það sé enginn á stjórnmálasviðinu að tala fyrir því að fara yfir í algjört opinbert kerfi eða algjört einkakerfi,“ segir Ólafur Þór.
„Vopnaður friður” vegna samninga við sérfræðilækna
Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, benti á að enn hafi ekki verið gengið frá samningum við sérfræðilækna. „Auðvitað verður lítil framþróun í þessari stöðu. Þetta er svona vopnaður friður getum við sagt þannig að þetta er ekkert ákjósanlegt. En það er verið að tala saman en það er lítill gangur,” segir Þórarinn.Þessi staða hafi aftur á móti sem betur fer ekki bitnað á sjúklingum að sögn Þórarins. Ítrekaði hann að aþjóðlegar kannanir hafi sýnt fram á að Ísland sé meðal fremstu í heimi hvað varðar aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, kvaðst sammála um að almennt ríki vilji fyrir að hafa áfram blandað kerfi. „Það er hins vegar staðreynd að í tíð núverandi ríkisstjórnar, sem að heilbrigðisráðherra hefur talað um að hann vilji styrkja þennan ríkisrekna hluta, þá hefur það verið gert ekki beinlínis með því bara að bæta þar í heldur með tilhliðrunum, það er að segja að það er verið að styrkja ríkisrekna hlutann á kostnað einkarekna hlutans,“ segir Hanna Katrín.
Umræðurnar í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér að neðan.
