Héraðsdómur Suðurlands dæmdi nýlega tvo fanga á Litla-Hrauni í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á ungan hælisleitanda frá Marokkó, Houssin Bsrai, sem einnig var fangi á Litla-Hrauni, í janúar árið 2018.
Houssin kom hingað til lands haustið 2016. Hann sat inni fyrir ítrekaðar flóttatilraunir en hann freistað þess að smygla sér um borð í eitt af flutningaskipum Eimskips og komast þannig til Kanada. Honum var vísað úr landi skömmu eftir árásina.
Í dómnum kemur fram að árásarmennirnir, Trausti Rafn Henriksson og Baldur Kolbeinsson, hafi ráðist að Houssin í íþróttasal fangelsisins þann 23. janúar í fyrra. Trausti hafi kýlt og sparkað Houssin ítrekað í höfuð og líkama og tekið hann hálstaki. Þá hafi Baldur einnig kýlt Houssin ítrekað í höfuð og líkama, sparkað í hann og snúið hann niður í gólfið.
Einnig hafi Baldur reynt að girða niður um hann buxurnar og sest síðan klofvega yfir búk hans og kýlt hann ítrekað með báðum höndum í höfuðið þar til hann missti meðvitund. Á meðan stappaði Trausti þrívegis á höfði Houssin, sem hlaut mikla áverka af árásinni.
Í dómi kemur fram að í upptöku úr eftirlitsmyndavél í íþróttasalnum hafi mátt sjá „fólskulega og alvarlega líkamsárás“ Trausta og Baldurs. Ekki fáist séð að Houssin hafi átt upptök að árásinni með höggi eða hráka, líkt og fram kom í máli ákærðu við skýrslutöku lögreglu.
Þá var Trausta Rafni einnig gefið að sök að hafa kastað stól í fangavörð á Litla-Hrauni í september árið 2016 og síðar hrækt í andlit hans. Baldur var einnig ákærður fyrir að hafa bitið hluta úr efri vör fanga á íþróttavelli við Litla-Hraun í júlí árið 2017.
Trausti og Baldur neituðu báðir sök að öllu leyti. Báðir voru þeir að endingu dæmdir í tveggja ára og sex mánuða fangelsi. Þá var þeim gert að greiða Houssin 600 þúsund krónur í miskabætur auk alls sakarkostnaðar.
Dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir „fólskulega“ árás á ungan hælisleitanda

Tengdar fréttir

Lögreglu gafst ekki tóm til að bregðast við brottför Houssins
Lögregla fékk ekki ráðrúm til að láta brotaþola alvarlegrar líkamsárásar á Litla-Hrauni staðfesta framburð sinn fyrir dómi eins og venja er ef vitni eða brotaþoli er á förum úr landi.

Ákærðir fyrir að stappa á höfði hælisleitanda á Hrauninu
Tveir fangar hafa verið ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn samfanga sínum.

Tveir ákærðir vegna árásar á Houssin
Tveir menn, Baldur Kolbeinsson og Trausti Rafn Hendriksson, eru ákærðir vegna alvarlegrar líkamsárásar á Litla-Hrauni 23. janúar síðastliðinn. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands 25. október næstkomandi.