Þá er meirihluti þeirra fyrirtækja sem átt hafa í samskiptum við Samkeppniseftirlitið undanfarna tólf mánuði og tóku þátt í könnuninni neikvæður í garð eftirlitsins og segist jafnframt bera lítið traust til þess.
Enn fremur lýsa flest þau fyrirtæki sem hafa undanfarið átt í samskiptum við Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið sig ósammála því að eftirlitsstofnanirnar veiti leiðbeiningar sem auðveldi þeim að takast á við lagalega óvissu og afstýra brotum á reglum.
Eftirlit umræddra stofnana er jafnframt að mati meirihluta fyrirtækjanna óskilvirkt.

„Fyrirtæki líta almennt svo á að stofnanirnar eigi að láta þeim í té skýrari leiðbeiningar um það hvað þau eigi að gera til þess að forðast að brjóta reglur. Og eins, þótt það hermi líka upp á löggjafann, telja fyrirtæki að það þurfi að eiga sér stað meira samtal þegar reglum er breytt,“ nefnir hann.
53 prósent fyrirtækja sem svöruðu könnun Maskínu – en alls bárust svör frá 384 fyrirtækjum og var svarhlutfall 52 prósent – töldu samráð sem haft er við þau áður en reglum er breytt vera slæmt en einungis 21 prósent svarenda sagði samráðið gott.
Hvað leiðbeiningarhlutverkið varðar sögðust ríflega 70 prósent þeirra fyrirtækja sem hafa átt í samskiptum við Samkeppniseftirlitið síðustu tólf mánuði vera ósammála því að stofnunin veitti leiðbeiningar sem auðvelduðu þeim að takast á við lagalega óvissu og afstýra brotum á reglum. Í tilfelli Fjármálaeftirlitsins töldu 58 prósent fyrirtækja að það skorti skýrari leiðbeiningar frá stofnuninni.
Gunnar Dofri segir blasa við að rými sé til bætinga hjá fjölmörgum stofnunum þó svo að margar komi vel út úr könnuninni. „Það er sérstaklega áhyggjuefni að sumar stofnanir koma töluvert verr út en aðrar. Það gæti mögulega átt sér sínar skýringar en það skýrir þó ekki af hverju stofnanirnar eru ekki taldar sinna leiðbeiningarhlutverki sínu nægilega vel.“
Gunnar Dofri segir könnunina munu gagnast eftirlitsstofnunum vel til þess að gera sér grein fyrir því hvernig eftirlit þeirra blasi við fyrirtækjum.
„Ef stofnanirnar líta svo á að hlutverk þeirra sé að taka þátt í að tryggja hagsæld hér á landi þá munu þær vonandi nýta niðurstöðurnar sem tól og tæki til þess að bæta sína starfsemi og gera eftirlit sitt betra og skilvirkara. Okkur getur greint á um hverjar reglurnar eiga að vera en það hlýtur að vera sameiginlegur skilningur okkar að þeim sé framfylgt með sem bestum hætti.“