Skoðun

Húsbílaáskorunin

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar
Með uppgangi ferðaþjónustunnar undanfarin ár hér og landi höfum við sem samfélag þurft að takast á við ýmsar óvæntar áskoranir. Má þar meðal annars nefna utanvegaakstur og ágang ferðamanna við hinar ýmsu náttúruperlur okkar. Ein slík óvænt áskorun er leiga húsbíla og ónæði sem af þeim getur stafað.

Í síðasta mánuði beindi ég fyrirspurn til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um húsbíla, svokallaða Campers á ensku. Svar ráðherra sem barst í síðustu viku er um margt áhugavert.

Þar kemur fram að það sé ekki fyllilega vitað hversu margar gistinætur séu í slíkum farartækjum utan hefðbundinna tjaldsvæða, en þær séu líklega á bilinu 150.000-250.000 á ári.

Þannig gæti fjöldinn verið á bilinu 2-3 prósent allra gistinátta og gistináttagjald af þeim þá á bilinu 45-75 milljónir króna á ári. Þessar tölur eru þó með þeim fyrirvara að tölur um slíka gistingu eru ekki sérstaklega aðgreindar frá tjaldgistingu.

Ýmsir möguleikar í stöðunni

Einnig spurði ég ráðherra hvort mögulegt væri að innheimta gistináttaskatt af leigu slíkra bifreiða af bílaleigunni, það er að segja þegar bíllinn er leigður út. Í rauninni er ekkert í lögum um gistináttagjald sem hindrar það. Hins vegar er enn sem komið er gert ráð fyrir að leigjendur bílanna greiði á þeim gististöðum sem þeir gista á t.d. á tjaldstæðunum.

Það hefur komið upp í umræðunni undanfarið að slíkir bílar gisti oft utan skilgreindra svæða og valdi þannig jafnvel ónæði og ama. Ef gistináttagjaldið væri innheimt af bílaleigunni væri hins vegar hægt að beina bílunum inn á hefðbundin tjaldsvæði og minnka þannig ágang á svæði utan þeirra.

Ráðherra telur að starfshópur á vegum Stjórnstöðvar ferðamála, sem skoðar nú gjaldtöku af ferðaþjónustunni í samræmi við stjórnarsáttmála, ætti að skoða þessa leið eða sambærilegar til að innheimta gjaldið. Ég tel það vera fagnaðarefni. Slíkt væri bæði skynsamlegt fjárhagslega og einnig góð leið til að beina ferðamönnum að gististöðum þar sem gert er ráð fyrir að þeir hafi næturstað.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs.




Skoðun

Sjá meira


×