Skoðun

Forréttindakrónan og hin

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Það er ekki nóg með að við búum hér við minnsta sjálfstæða gjaldmiðil heims heldur er íslensku krónunni í reynd skipt í tvennt. Annars vegar er það sú verðtryggða, það er forréttindakrónan. Verðtryggingin sem þessi króna nýtur veldur því að hún heldur verðgildi sínu hvað sem á gengur. Hin krónan, sú sem við fáum launin okkar greidd í, er ekki jafn dugleg að halda verðgildi sínu enda gengur ýmislegt á í lífi örgjaldmiðils í sveiflukenndu hagkerfi.

Það eru í sjálfu sér ekkert annað en lágmarkskröfur sem hægt er að gera til gjaldmiðils í vestrænu nútímahagkerfi að hann haldi almennt verðgildi sínu. En við erum að tala um krónuhagkerfið okkar og í þeim veruleika eru það forréttindi. Verðtryggð forréttindi.

Í samanburði við verðtryggðu krónuna er launakrónan óttalegur vesalingur. Það er sú króna sem þorri almennings hefur til að spila með frá degi til dags. Munurinn þarna á milli er bagginn á herðum íslensku þjóðarinnar. Baggi sem felur í sér strit launafólks við að greiða lán í forréttindakrónum með launakrónum. Staðreyndin er nefnilega sú að verðtryggingin bitnar hrikalega á íslenskum almenningi.

Stærsti hluti kostnaðarins við íslenskan örgjaldmiðil felst í viðvarandi hærri vöxtum hér í samanburði við nágrannalönd okkar. Kostnaður íslenskra heimila og fyrirtækja vegna þessa nemur um 200 milljörðum króna á ári. Þar að auki lenda íslensk fyrirtæki reglulega í hagsveiflurússíbana sem fer hér í mun stærri sveiflur en þekkist víðast annars staðar. Uppsveiflan er frábær, en svo kemur að skuldadögum. Áreiðanleg áætlanagerð reynist því mörgum erfið þar sem óvissuþátturinn er mjög stór og sveiflurnar miklar. Heimilin taka verðbólguskellinn í gegnum launakrónurnar sínar og útflutningsgreinarnar okkar þurfa að aðlagast óstöðugasta starfsumhverfi í hinum vestræna heimi.

Íslenskir neytendur mega svo búa við það að íslenska krónan, báðar útgáfurnar, eru ástæða þess að samhengi launa og kaupmáttar er annað og minna en það ætti að vera.

Hverjum er þessi staða sérstakt keppikefli?

Af hverju?




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×