Erlent

Evrópskir þjóðernissinnar og hægriöfgamenn taka höndum saman

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá vinstri: Olli Kotro, fulltrúi Sannra Finna, Jörg Meuthen, varaformaður Valkosts fyrir Þýskaland, Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu, og Anders Vistisen, fulltrúi Þjóðarflokksins.
Frá vinstri: Olli Kotro, fulltrúi Sannra Finna, Jörg Meuthen, varaformaður Valkosts fyrir Þýskaland, Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu, og Anders Vistisen, fulltrúi Þjóðarflokksins. Vísir/EPA
Flokkar hægriþjóðernissinna ætla að mynda bandalag á Evrópuþinginu með það fyrir augum umbreyta Evrópusambandinu innan frá. Þjóðernissinnar frá Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og Ítalíu eiga aðild að samstarfinu.

Hópurinn ætlar að heyja kosningabaráttu fyrir Evrópuþingskosningarnar sem fara fram 23.-26. maí. Matteo Salvini, leiðtogi hægriöfgaflokksins Bandalagsins og varaforsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti um stofnun hópsins sem fékk nafnið „Evrópska bandalag fólks og þjóða“ í dag. Þingflokkurinn ætlar sér að leggja áherslu á að tryggja ytri landamæri Evrópusambandsins, draga úr innflutningi fólks og bæta samstarf gegn hryðjuverkjum og „íslamsvæðingu“, að sögn Anders Vistisen, Evrópuþingmanns Þjóðarflokksins.

Honum til fulltingis voru fulltrúar danska Þjóðarflokksins, Sannra Finna og Valkosts fyrir Þýskaland. Allt eru það flokkar sem hafa sett þjóðernishyggju og andúð á innflytjendum á oddinn hver í sínu landi.

Aðeins þessir fjórir flokkar hafa skráð sig til þátttöku en forsvarsmenn hans segjast vonast til þess að fá tíu flokka í bandalagið. Það verður þó ekki hægt að stofna formlega fyrr en að kosningunum loknum og þá aðeins ef þeir ná 25 þingmönnum kjörnum frá að minnsta kosti sjö ríkjum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×