Lögregla í Austurríki hefur handtekið karlmann sem grunaður er um að hafa reynt í tvígang að ná farþegalestum á ferð af sporinu í Þýskalandi með því að koma hlutum fyrir á teinunum.
Saksóknarar segja að maðurinn, sem er 42 ára Íraki, sé talinn vera stuðningsmaður hryðjuverkasamtakanna ISIS. Fundust ISIS-fánar og textabrot á arabísku á þeim stað þar sem reynt var að koma lestunum af sporinu.
Fulltrúar þýskra og austurrískra yfirvalda yfirheyra nú manninn í Vínarborg, þar sem hann var tekinn höndum.
Austurríska blaðið Kronen Zeitung segir að hinn handtekni sé fimm bara faðir sem hafi starfað í írakska hernum í fimmtán ár. Þá hafi hann fengið stöðu flóttamanns í Austurríki og þar sem hann hafi starfað hjá öryggisfyrirtæki.
Saksóknarar segja að hann hafi í október á síðasta ári, í félagi við aðra, komið stálköplum fyrir á lestarteinunum milli München og Nürnberg sem varð til þess að rúða á Inter City Express lest skemmdist. Þá hafi steypuklumpum verið komið fyrir á teinunum tveimur mánuðum síðar. Enginn slasaðist þá.
Talinn hafa reynt að koma farþegalestum af sporinu
Atli Ísleifsson skrifar
