Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði ríkisstjórnina fyrst og fremst hafa farið yfir fjármálaáætlun á fundi í Stjórnarráðinu fyrr í dag. Ekkert hafi verið rætt um skipun nýs dómsmálaráðherra eftir að Sigríður Á. Andersen sagði af sér embætti í gær.
Aðspurður sagði Sigurður Ingi ríkisstjórnarfundinn ekki hafa verið erfiðan.
„Nei, við vorum svo sem fyrst og fremst að fara yfir fjármálaáætlun.“
Þá tók hann í sama streng og aðrir ráðherrar sem rætt var við að loknum fundi í stjórnarráðinu, þ.e. að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um nýjan dómsmálaráðherra. Ekkert hafi heldur verið rætt um tilfærslur innan ráðuneyta.
„Nei, það er í höndum formanns Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokksins að tilnefna hann. Kemur í ljós í dag.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur boðað þingflokk Sjálfstæðisflokksins til fundar í Alþingishúsinu klukkan 14:30 í dag. Ætla má að þar muni Bjarni ræða við þingmenn um stöðuna sem er upp komin eftir að Sigríður Andersen sagði af sér sem dómsmálaráðherra í gær. Þá hefur verið boðað til ríkisráðsfundar klukkan 16 í dag vegna þessa.
Í spilaranum að ofan má sjá viðbrögð Sigurðar Inga, Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur iðnaðarráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
