Ólafur Þór, sem stýrði rannsókninni fyrir hönd meðferðar- og fræðslusetursins Forvarna, segir að um tímamótarannsókn sé að ræða en hún byggir á svörum 728 lækna sem er ríflega helmingur allra lækna á Íslandi.
„Það hafa verið gerðar kannanir á ákveðnum starfsstöðvum en það hefur aldrei áður verið gerð svona viðamikil og heildstæð könnun meðal allra lækna á Íslandi.“

Samkvæmt könnuninni hugleiddi um helmingur lækna það á 12 mánaða tímabili sem hún náði til oft eða stundum að láta af störfum. „Margir læknar eru undir miklu álagi og margir hugleiða það að hætta eða reyna að skipta um starf og þá er ekki um margt annað að ræða en að fara til útlanda. Það eru ekki margir vinnustaðir fyrir alla þá sem eru mjög sérhæfðir og svo er heldur ekki auðvelt að færa sig um set innan kerfisins.“
Ekki reyndist mikill munur á afstöðu lækna eftir ólíkum starfsstöðvum. „Þetta virðist vera svipað yfir kerfið þannig að það er engin starfsstöð sem sker sig úr. Álagið er mjög mikið alls staðar og þess vegna er ekki hægt að beina gagnrýni til einhverra ákveðinna starfsstaða heldur gildir þetta um allt heilbrigðiskerfið.“
Ólafur segir að starfsálagið birtist ekki bara í því að mikið sé að gera hjá læknum, heldur líka í því að starfsaðstöðu sé ábótavant og mönnun kerfisins ekki næg. Þannig taldist aðeins fjórðungur starfsstöðva hæfilega mannaður en um 72 prósent þeirra undirmönnuð.