Skoðun

Staða vestnorrænu ríkjanna í breyttum heimi

Guðjóns S. Brjánsson skrifar
Mikið umrót hefur einkennt stöðuna í alþjóðamálum á undanförnum árum. Við förum ekki varhluta af því hér á okkar norðlægu slóðum, hvort sem litið er til sviptivinda í alþjóðastjórnmálum eða afleiðinga hnattrænnar hlýnunar.

Við þurfum að vera vakandi fyrir þessum breytingum og leggja okkur fram við að skilja þær og geta brugðist við þeim.

Í þessari viku gefst okkur kærkomið tækifæri til þess að kryfja þessi mál til mergjar á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem að þessu sinni fer fram á suðvesturhorni Íslands.

Margt sem sameinar

Vestnorræna ráðið er samstarfsráð þjóðþinga Íslands, Færeyja og Grænlands. Það kemur saman tvisvar á ári, um þetta leyti til þemaráðstefnu og til ársfundar í haustbyrjun. Samstarfið er okkur öllum mjög mikilvægt. Margt er það sem sameinar okkur en ýmislegt er líka ólíkt milli landanna.

Á morgun, miðvikudag boðar Vestnorræna ráðið, ásamt samstarfsaðilum, til þemaráðstefnu í Norræna húsinu þar sem allir eru velkomnir. Þar ætlum við að ræða stöðu vestnorrænu ríkjanna í breyttum heimi alþjóðastjórnmála. Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar á svæðinu og velta umræðuefninu fyrir sér. Dagskrá og frekari upplýsingar má finna á vefsíðu Vestnorræna ráðsins, vestnordisk.is.



Upptaktur frekari umræðna

Við búumst ekki við neinni lokaniðurstöðu á morgun, miklu heldur að ráðstefnan verði upptaktur frekari umræðna í samfélögum okkar. Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að þekkja til sjónarmiða nágranna okkar og vina á vestnorræna svæðinu og átta okkur á því hvernig við saman getum eflt samstarfið og styrkt stöðu ríkjanna þriggja í breyttum heimi.

Höfundur er alþingismaður




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×