Makedónska þingið samþykkti í gær að breyta nafni landsins í Norður-Makedóníu. Lágmarksmeirihluti náðist fyrir nafnabreytingunni en 81 af 120 þingmönnum greiddu með nafnabreytingunni.
Með nafnabreytingunni vonast Makedóníumenn til þess að binda enda á áratugalangar deilur milli Makedóníu og Grikklands, en í Grikklandi er að finna samnefnt hérað og binda landsmenn vonir við að nafnabreytingin verði til þess fallin að fólk rugli ekki saman héraðinu og landinu.
Breytingin verður nú einnig lögð undir gríska þingið sem þarf að samþykkja nafnabreytinguna. Fari svo að hún verði samþykkt munu Grikkir afsala sér neitunarvaldi um það hvort Norður-Makedónía geti gengið í alþjóðasamstarf á borð við Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið.
Nafnabreytingin var samþykkt í fyrsta sinn í október á síðasta ári en fyrir lá að kjósa þyrfti um breytinguna aftur. Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið og kölluðu margir þeirra breytinguna landráð af hálfu stjórnvalda. Þá eru þjóðernissinnar beggja ríkja mótfallnir nafnabreytingunni.
Makedónía verður Norður-Makedónía

Tengdar fréttir

Makedónska þingið samþykkir að breyta nafni landsins
Makedónska þingið samþykkti í gær að breyta nafni landsins, sem heitir nú formlega lýðveldið Makedónía. Gangi nafnabreytingin í gegn mun ríkið heita Norður-Makedónía.

Náðu ekki að breyta nafninu í Norður-Makedónía
Of lítil kjörsókn var í þjóðaratkvæðagreiðslu Makedóna um að breyta nafni ríkisins í Norður-Makedónía til að atkvæðagreiðslan teljist bindandi.

Makedónskir þingmenn greiða atkvæði um nýtt nafn á landinu
Makedónska þingið mun í dag greiða atkvæði um stjórnarskrárbreytingu sem felur í sér að Makedónía skipti um nafn og verði þekkt undir nafninu Norður-Makedónía.