Innlent

Segir alvarlegt ástand í grunnskólunum

Sveinn Arnarsson skrifar
Bítlabærinn hefur stækkað gífurlega síðustu ár.
Bítlabærinn hefur stækkað gífurlega síðustu ár. Fréttablaðið/GVA
„Margir kennarar eru að gefast upp á álaginu. Í haust eru dæmi um kulnun í starfi hjá kennurum þannig að fólk er komið í veikindafrí eða er hætt að starfa í skólunum,“ segir Skúli Sigurðsson, fulltrúi grunnskólakennara á fræðslusviði Reykjanesbæjar.

Starfsáætlun fræðslusviðs ársins var til umræðu á síðasta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar. Bærinn hefur vaxið síðustu ár og börnum af erlendum uppruna í grunnskólum hefur fjölgað mikið. Sá hópur þarf oft meiri stuðning við nám en aðrir nemendur.

„Við trúnaðarmenn á Suðurnesjum viljum vekja athygli á því ástandi sem ríkir í grunnskólum á svæðinu. Eftir að hafa verið á fundi og rætt málin þá er samróma ályktun okkar að óeðlilegt álag sé á kennurum og kemur það mikið niður á þeim,“ segir Skúli í harðorðri bókun í fundargerð.

Skúli segir að ein af ástæðum kulnunar í starfi sé úrræðaleysi í aðkallandi vandamálum.

„Það er sveitarstjórnar að vinna í því að bæta ástandið í skólunum og hafa úrræði fyrir þá sem þurfa en ekki  horfa framhjá vandamálinu og vona að það hverfi,“ segir Skúli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×