Króatar eru með fullt hús á toppi B-riðils okkar Íslendinga á HM í handbolta eftir níu marka sigur á Makedóníu í dag.
Bæði lið höfðu unnið fyrstu tvo leiki sína á mótinu fyrir leikinn og var jafnræði með liðunum framan af en Króatar voru þó skrefinu framar. Þegar leið á fyrri hálfleikinn fjölgaði skrefunum og var fimm marka munur í hálfleik.
Makedóníumenn náðu einu áhlaupi í byrjun seinni hálfleiksins en það dugði ekki til og Króatar enduðu á að vinna örugglega 31-22.
Domagoj Duvnjak skoraði sex mörk fyrir Króata og Dejan Manaskov var atkvæðamestur Makedóníumanna.
Spánverjar og Japanir eigast við í lokaleik þriðju umferðar riðilsins seinna í kvöld.
Í A-riðli náðu Rússar að hafa stig af heimamönnum Þjóðverja og gerðu liðin 22-22 jafntefli.
Egyptar náðu í sín fyrstu stig í uppgjöri botnliða D-riðils, þeir unnu Argentínumenn 22-20. Argentína hafði verið 9-8 yfir í hálfleik.

