Bílsprengja sem sprakk við lögregluskóla í Bogotá, höfuðborg Kólumbíu, banaði að minnsta kosti átta manns og særði tíu til viðbótar í dag. Ekki liggur fyrir hver stóð að sprengingunni.
Reuters-fréttastofan segir að ekki hafi verið staðfest hvort að þeir sem létust og særðust hafi verið lögreglumenn eða óbreyttir borgarar. Sprengjan sprakk við Santander-lögregluskólann suður af höfuðborginni.
Iván Duque, forseti Kólumbíu, segist hafa skipað öryggissveitum að hafa uppi á þeim sem báru ábyrgð á sprengingunni. „Allir Kólumbíumenn hafnað hryðjuverkum og standa saman gegn þeim,“ sagði forsetinn á Twitter.
Borgarastríð geisaði í Kólumbíu um áratugaskeið en tiltölulega friðsamlegt hefur verið eftir að stjórnvöld gerðu friðarsáttmála við skæruliðasveitir FARC árið 2016.

