Erlent

Theresa May ræðir við ESB-leiðtoga

Þórsnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Nordicphotos/AFP
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ræddust í gær við í síma um næstu skref í Brexit-málinu. Tusk greindi frá símtalinu á Twitter en sagði ekki nánar frá því hvað þeim fór í milli. May fundaði að auki með nokkrum ráðherrum í gær og ræddi við Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, í gærkvöld. Hún býst við því að eiga í frekari viðræðum við evrópska leiðtoga um helgina.

Erfið pattstaða er nú uppi í Brexit-málinu eftir að breska þingið hafnaði samningi May-stjórnarinnar við ESB á afgerandi hátt. May á að kynna næstu skref ríkisstjórnarinnar á mánudaginn en samkvæmt Rutte er erfitt að sjá fyrir sér breytingar á samningnum sem nú þegar hefur verið teiknaður upp.

„Ég sagði henni að ég sæi ekki fyrir mér hvernig ætti að breyta nokkru. Hún býst fastlega við því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu þann 29. mars,“ sagði Rutte í gær.

Sú dagsetning er settur útgöngudagur og þótt stjórnarandstaðan í Bretlandi vilji að henni sé frestað af ótta við samningslausa útgöngu er May ekki á sömu skoðun. Hefur sagt að ríkisstjórninni beri skylda til þess að verða við þeirri kröfu sem breska þjóðin setti fram í þjóðar­atkvæðagreiðslunni árið 2016.




Tengdar fréttir

Corbyn hundsaði boð May um viðræður

Formaður Verkamannaflokksins segir viðræður forsætisráðherra um framhaldið í Brexit-málinu sýndarmennsku. Vill að samningslaus útganga sé fyrst tekin af borðinu. Það vill May ekki gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×