Erlent

Skora á Þjóðverja að skila málverki sem nasistar stálu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eike Schmidt við ljósmyndina af verkinu í Uffizi-safninu.
Eike Schmidt við ljósmyndina af verkinu í Uffizi-safninu. vísir/ap
Stjórnendur Uffizi-listasafnsins í Flórens hafa skorað á þýsku ríkisstjórnina að aðstoða við að ná til baka málverki sem nasistar stálu í seinni heimsstyrjöldinni.

Málverkið er eftir hollenska meistarann Jan van Huysum, heitir Vasi með blómum og er hjá þýskri fjölskyldu.

Eike Schmidt, stjórnandi Uffizi-safnsins, er þýskur. Hann segir að Þjóðverjum beri siðferðisleg skylda til þess að skila verkinu.

„Ég vona að það verði gert eins fljótt og auðið er og að öðrum verkum sem nasistar stálu verði líka skilað,“ segir Schmidt.

Málverkið var fyrst sýnt í Flórens árið 1824. Verkið var til sýnis í Pitti-höllinni, hluta Uffizi-safnsins, til ársins 1940 þegar það var flutt í lítið þorp nálægt Flórens vegna stríðsins. Árið 1944 stálu svo nasistar málverkinu og eftir sameiningu Þýskalands 1991 varð ómögulegt að rekja hvar það væri.

Schmidt segir að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ítalskra yfirvalda þá hafi þýska fjölskyldan sem hafi verkið í fórum sínum neitað að skila því.

Þá segir hann að milliliðir hafi í gegnum tíðina reynt að selja verkið og leiddi síðasta tilraun til þess að saksóknarinn í Flórens hóf rannsókn á málinu.

Ljósmynd af verkinu hefur verið sett upp í Pitti-höllinni með orðunum „Rænt“ á ítölsku, ensku og þýsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×