Forsætisráðherra segir að tillögur stjórnvalda í húsnæðismálum muni liggja fyrir eftir miðjan næsta mánuð. Þörf sé á byggingu allt að átta þúsund íbúða til að mæta þörfum lægst launaða fólksins í landinu sem stjórnvöld og fleiri aðilar þurfi að sameinast um að uppfylla.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði átakshóp í húsnæðismálum fyrir um hálfum mánuði sem kynnti stöðu mála á fundi hennar og fjármálaráðherra með aðilum almenna- og opinbera vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í gær. En forseti Alþýðusambandsins segir húsnæðismálin og skattamálin vera mikilvægust í tengslum við komandi kjarasamninga.
„Ég er mjög bjartsýn á að þau muni koma með góðar tillögur sem verði mikilvægt innlegg til að leysa húsnæðisvandann. Við höfum lesið það þannig, eins og þú segir, verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á húsnæðismálin. Þau séu einn lykilinn að því að greiða fyrir kjarasamningum á almennum markaði,“ segir Katrín.
Ríkisstjórnin muni síðan kynna hugmyndir sínar um endurskoðun á tekjuskattskerfinu eftir áramót sem miði að því að styrkja stöðu lágtekjuhópa og lægri millitekjuhópa. Húsnæðishópurinn sé að skoða hvernig bregðast megi við skorti á húsnæði fyrir þessa hópa bæði til skemmri og lengri tíma.
„Við vorum að fara yfir hvernig staðan er, hvað er í pípunum og hvað þarf til að leysa þennan vanda. Þar er talað um fimm til átta þúsund íbúðir eftir því hvort við erum að horfa á alla sem eru hér á landi. Þannig að þetta er verkefni,“ segir Katrín.
Í dag leggja stjórnvöld til 18 prósent af stofnframlögum til byggingar tiltekins fjölda íbúða til óhagnaðardrifinna byggingarfélaga. Allir verði að leggjast á eitt við enn frekari uppbyggingu íbúða.
„Þar sem allir þurfa að leggja sitt að mörkum bæði ríki og sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins. Þessi hópur var bjartsýnn á að hann muni skila af sér á réttum tíma sem er 20. janúar. Þannig að við eigum von á skýrum tillögum þá,“ segir forsætisráðherra. Þá sé ríkisstjórnin að skoða kerfisbreytingar á tekjuskattskerfinu þannig að það sinni bæði tekjuöflunar og tekjujöfnunarhlutverki sínu betur.
„En síðan þegar skattprósentan er stillt af, sem við gerum í raun og veru árlega, skiptir auðvitað máli hver staða efnahagsmála er,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Forsætisráðherra bjartsýn á tillögur til lausnar húsnæðisvanda

Tengdar fréttir

ASÍ telur átakshóp um húsnæðismál fara of seint af stað
Átakshópur ríkisstjórnarinnar og heildarsamtaka vinnumarkaðarins á að skila tillögum til úrbóta á húsnæðismarkaði í janúar. Fyrsti varaforseti ASÍ segir vinnuna fara of seint af stað þar sem kjarasamningar renni út um áramótin en forsætisráðherra er bjartsýn á að hópurinn skili af sér raunhæfum tillögum innan skamms.

Anna og Gísli stýra átakshópi um húsnæðisvanda til að liðka fyrir kjaraviðræðum
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, verða formenn átakshóps stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði um húsnæðisvandann til að liðka fyrir kjaraviðræðum.