Skoðun

Þegar aðeins ein leið er fær

Þorvaldur Gylfason skrifar
Reykjavík – Oftast eru tvær eða fleiri leiðir færar að settu marki. Sú staða getur þó komið upp að aðeins ein leið sé fær. Alþingi hefur komið sér í þá stöðu.

Þjóðin ein getur veitt Alþingi uppreist æru

Þráinn Bertelsson fv. alþingismaður orðar þessa hugsun vel. Hann segir:

„Ruddamennska og spilling á Alþingi birtist ekki bara með heimskulegu og ógeðslegu rausi yfir glösum heldur fyrst og fremst með því að sýna þjóðinni fyrirlitningu með því að setja sig ofar almenningi og viðurkenna ekki af hverjum Alþingi þiggur vald sitt.

Nú væri ráð fyrir Alþingi til að endurheimta lágmarksvirðingu og traust hjá þjóðinni með því að sleppa tafarlaust úr gíslingu þeirri stjórnarskrá sem þjóðin lét semja og setja hana óbrenglaða í lögformlegt ferli og stuðla án undanbragða að samþykkt hennar sem allra fyrst.

Þetta væri til marks um að ruddamennskan hafi ekki náð traustum og varanlegum meirihluta á þinginu og ennfremur til marks um fúsleika til að þjóna þjóðinni og láta að vilja hennar.

Þjóðin ein getur veitt Alþingi uppreisn æru.

„Þing sem setur sig ofar þjóðinni og býr sig undir að sitja í skjóli vopnaðrar lögreglu á þjóðin að senda heim með skófar á afturendanum – án þess að tefja sig á því að setja málið í nefnd.“

Hörður Torfason söngvaskáld tekur í sama streng. Hann segir:

„Eina færa leið Alþingis til að öðlast virðingu er að hlýða kalli fólksins og setja nýja stjórnarskrá.“

Þúsundir kvenna  hafa lýst sig sama sinnis með heilsíðuauglýsingum í blöðum.

Djúpstæður vandi Alþingis

Alþingi á við djúpstæðan vanda að stríða sem margir menn, innan húss og utan, hafa lýst á prenti.

Vandinn kristallast í fernum mistökum sem hafa smám saman grafið undan trausti og virðingu þingsins.

Fyrsta villan var hermangið sem dró óprúttinn fjárglæfralýð að stjórnmálaflokkunum, einkum Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, og dró dilk á eftir sér.

Næsta villa var ókeypis afhending verðmætra aflaheimilda í hendur útvegsmanna sem urðu að uppivöðslusamri auðstétt og hafa m.a. lagt undir sig Morgunblaðið og magnað spillingaráhrif hermangsins.

Þriðja villan var ósvífin útfærsla einkavæðingar gömlu bankanna í hendur vildarvina fyrrnefndra flokka með hörmulegum afleiðingum sem allir þekkja. Margir bankamenn fengu dóma, en ýmsir höfuðpaurar sluppu í boði Alþingis sem vanrækti að rannsaka einkavæðingu bankanna og leyfði meintum brotum að fyrnast þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir um að girða fyrir fyrningar. Alþingi hefði þurft að lengja fyrningarfrest hruntengdra brota en þingið kaus að gera það ekki. Hér er við alla þingflokka að sakast, ekki bara gömlu helmingaskiptaflokkana. Önnur yfirvöld, þ.m.t. lögregla og embætti saksóknara, sinntu ekki heldur áskorunum um að hefja rannsókn til að girða fyrir fyrningar og kunna að hafa bakað sér refsiábyrgð með vanrækslu sinni. Tíminn mun skera úr því.

Fjórðu villuna leiðir af fyrri villunum þrem. Þegar Alþingi stóð uppi ærulaust eftir hrun átti það einn sterkan leik í stöðunni: að bjóða þjóðinni að setja sér nýja stjórnarskrá á eigin spýtur án afskipta þingsins. Alþingi fór þessa leið, einu færu leiðina. Allt gekk eins og í sögu, ný stjórnarskrá  varð til fyrir tilverknað fólksins í landinu. Hún hefur fengið afbragðsgóðar viðtökur innan lands og utan og hlaut samþykki 2/3 hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi bauð til 2012. Þá var ekkert eftir annað en að Alþingi staðfesti nýju stjórnarskrána fyrir og eftir kosningarnar 2013. Það gerði Alþingi þó ekki.

Það er mesta hneisa sem Alþingi hefur kallað yfir sjálft sig og okkur öll. Síðan bætti þingið gráu ofan á svart.

Hvers vegna fór Alþingi svo illa að ráði sínu? Það er þekkt fyrirbæri að brotamenn færa sig upp á skaftið með því að treysta sér smám saman til alvarlegri brota ef þeim er ekki settur stóllinn fyrir dyrnar. Hermangið, kvótakerfið og spillt einkavinavæðing bankanna sljóvguðu svo siðvitund stjórnmálastéttarinnar að Ísland telst nú ekki lengur óskorað lýðræðisríki. Sú staðreynd kallar á sterk viðbrögð án frekari tafar.

Alþingi þarf endurnýjað umboð

Vandi Alþingis nú er ekki bundinn við einstök atvik og meint lögbrot tengd þeim. Kjarni vandans er að Alþingi hefur ekki tekizt að endurheimta traust fólksins í landinu frá hruni þar eð þingmenn taka eigin hagsmuni og aðra sérhagsmuni fram yfir almannahag. Fv. forsætisráðherra sem 86% kjósenda telja að eigi að segja af sér þingmennsku finnst eðlilegt að hann sitji áfram alveg eins og honum finnst eðlilegt að stjórnarskrá sem 67% kjósenda samþykktu 2012 nái ekki fram að ganga á Alþingi.

Út úr þessum vanda er aðeins ein leið fær. Forsætisráðherra þarf að biðja forseta Íslands að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga. Fyrir þingrof þarf hún að mynda meirihluta á þinginu um staðfestingu nýju stjórnarskrárinnar sem hefur legið fyrir fullbúin frá 2013 og heita því að mynda meirihluta um endurstaðfestingu eftir kosningar. Að því loknu verða alþingiskosningar loksins aftur lögmætar í samræmi við ákvæði nýju stjórnarskrárinnar um jafnt vægi atkvæða.

Þá loksins getur Alþingi gert sér von um að ávinna sér aftur traust og virðingu. Annars er voðinn vís.




Skoðun

Sjá meira


×