Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands boðaði sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi á sinn fund í morgun til að kynna starfsemi stofnunarinnar og þær breytingar sem framundan eru. Örfáir sveitarstjórnarmenn mættu. Helstu tíðindi dagsins er lokun skurðstofunnar á Selfossi frá áramótum.
„Síðustu ár hafa verið gerðar aðgerðir hérna einn dag í viku í svæfingu. Nú horfir þannig fram á veginn hjá okkur að við erum með svæfingalæknir, sem er að láta af störfum hjá okkur um áramótin og við stöndum frammi fyrir því að þurfa að gera umtalsverðar endurbætur á húsnæðinu hjá okkur. Við ætlum þá að nýta þetta húsnæði sem er illa nýtt aðra daga fyrir aðra starfsemi á meðan það er verið að gera endurbætur á húsnæðinu, þannig að við þurfum að loka tímabundið fyrir ákveðnar aðgerðir hjá okkur“, segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

En á að loka skurðstofunni fyrir fullt og allt ?
„Við þurfum minnsta kosti tvö ár hugsa ég til þess að fara í þessar nauðsynlegustu endurbætur sem við erum að gera núna á rafmagni og fleiru sem er í mjög alvarlegu ástandi í húsinu hérna hjá okkur“, segir Herdís og bætir við að Heilbrigðisráðuneytið hafi samþykkt ákvörðunina um lokun skurðstofunnar þegar sú ákvörðun var borin undir ráðuneytið.