Hæstiréttur Íslands hefur fallist á beiðni Glitnis HoldCo um að lögbannsmál þrotabúsins gegn Stundinni verði tekið fyrir. Hins vegar telur Hæstiréttur að lögbannið sjálft sé fallið úr gildi og að ekki sé lengur hægt að krefjast þess að lögbannið verði staðfest með dómi. Frá þessu er greint á vef Stundarinnar.
Mun Hæstiréttur taka fyrir kröfu um að viðurkennt verði að fjölmiðlum sé óheimilt að byggja á gögnunum úr þrotabúi Glitnis í fréttaflutningi og beri að afhenda gögnin.
Stundin hefur áður lagt Glitni HoldCo bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur sem og í Landsrétti.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu lagði lögbann á frekari fréttaflutning upp úr gögnum sem Stundin hafði undir höndum að beiðni Glitnis HoldCo, eignarhaldsfélags sem heldur utan um eignir sem tilheyrðu þrotabúi Glitnis, 13. október í fyrra.
Blaðið hafði þá fjallað ítarlega um viðskipti Bjarna Benediktssonar, sem á þeim tímapunkti var forsætisráðherra en gegnir nú starfi fjármálaráðherra. Lögbannið var sett á aðeins rúmum tveimur vikum fyrir Alþingiskosningar 28. október.
Í tilkynningu frá Glitni HoldCo á sínum tíma sagði að farið hefði verið fram á lögbannið þar sem fréttirnar byggðust á gífurlegu magni gagna sem innihéldu upplýsingar um fjárhagsmálefni þúsunda viðskiptavina bankans. Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. febrúar síðastliðinn og í Landsrétti 5. október.
Hæstiréttur tekur lögbannsmálið fyrir

Tengdar fréttir

„Ég óska þess innilega að þeir láti staðar numið hér“
Einn ritstjóra Stundarinnar segir aðstandendur miðilsins fagna þeim áfangasigri sem felist í dómi Landsréttar

Gjaldþrota bankar hafi ekki ritstjórnarvald
"Bannaðar fréttir birtar.“ Með þessum orðum kynnti Stundin áframhaldandi umfjöllun sína upp úr gögnum úr gamla Glitni, rúmu ári eftir að lögbann var sett á fréttaflutning blaðsins úr Glitnisskjölunum.

Fara fram á heimild til áfrýjunar í lögbannsmálinu gegn Stundinni
Eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo hefur farið fram á heimild Hæstaréttar til áfrýjunnar í lögbannsmáli félagsins gegn Stundinni. Lögbannið hefur verið á í meira en eitt ár.

Stundin lagði Glitni í Landsrétti
Landsréttur staðfesti í dag niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Stundarmálinu svokallaða.