Um 7.900 ferkílómetrar Amasónfrumskógarins voru ruddir á tímabilinu milli ágúst mánaðar ársins 2017 og júlí ársins 2018. Aukningin nemur 13.7% frá árinu áður.
Tölurnar valda brasilískum umhverfisverndarsinnum áhyggjum, ekki síst vegna skoðana nýkjörins forseta Brasilíu, Jair Bolsonaro.

Segir ástæðuna ólöglegt skógarhögg
Bolsonaro, sem var kjörinn forseti í lok október og tekur við embættinu á nýju ári, sagði í kosningabaráttu sinni að sektir vegna skógareyðingar yrðu minnkaðar og hugðist draga úr áhrifum umhverfisverndarsamtaka í landinu.Annað kosningaloforð Bolsonaro var að sameina landbúnaðar og umhverfisráðuneytin. Talið er að sú aðgerð geti haft slæm áhrif á Amasónregnskóginn.
Umhverfisráðherra Brasilíu, Edson Duarte segir aukninguna stafa af ólöglegu skógarhöggi í skóginum og hvatti til hertra aðgerða gegn slíkri skipulagðri glæpastarfsemi.
Mest hefur skógareyðingin verið í héruðunum Mato Grosso og Pará.