Þetta kemur fram á RÚV en Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, sem er ein þeirra sem farið er um afar ófögrum orðum staðfestir þetta. Hún segir reyndar ummælin dæma sig sjálf og að hún vilji ekki setjast í dómarasæti.
Sæta stelpan hún Áslaug
Vísir náði tali af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, en hún er að skoða málið. Samkvæmt heimildum Vísis er hún hin unga Sjálfstæðiskona sem nefnd er í umræddu rausi, að hún væri sæt stelpa sem farið væri að falla á.
Oddný er algjör apaköttur
Helga Vala Helgadóttir Samfylkingu hefur sagt að ummælin vitni um stæka kvenfyrirlitningu. Oddný hefur einnig sagt, í samtali við Vísi, að ummælin dæmi sig sjálf. En um hana sagði Gunnar Bragi: „Oddný er ekkert ágæt. Hún er algjör apaköttur. Hún veit ekki neitt, kann ekki neitt, getur ekki neitt.“Um unga ónafngreinda stjórnmálakonu úr Sjálfstæðisflokknum: „Ég held reyndar að [...] geti verið helvíti öflug. Hún er helvíti sæt stelpa.“
Anna Kolbrún Árnadóttir leggur það til málanna, á téðum Klaustursfundi, að strákar séu upp til hópa lesblindir en stelpur talnablindar. „Er það þess vegna sem þær vita ekki hjá hvað mörgum þeir sofa hjá,“ svaraði Gunnar Bragi.
Hann hefur reyndar sagt í dag að hann hafi orðið steinhissa þá er hann heyrði í sjálfum sér. En, hann kallaði Unni Brá Konráðsdóttur, fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins „kræfa kerfiskerlingu“.
Meðal þeirra ummæla sem Bergþór lét falla um Ingu Sæland var svo að hún væri „húrrandi klikkuð kunta“. Bergþór hefur beðið Ingu afsökunar á ummælum sínum en hún segist vilja fyrirgefa það en vill sjá hvað dagurinn ber í skauti sínu. Þó allar þær sem þegar hafa tjáð sig segi að ummælin dæmi sig sjálf bendir flest til þess að við þau verði ekki búið.