Rannsakendur vinna enn hörðum höndum að því að safna saman gögnum um hvað varð til þess að flugvél Lion Air hrapaði í hafið nokkrum mínútum eftir að flugtak frá Jakarta, höfuðborg Indónesíu, í síðustu viku. Allir farþegar vélarinnar og áhöfn fórust í slysinu, alls 189 manns.
Brak úr vélinni hefur fundist sem og svarti kassi vélarinnar. Rannsakendur hafa greint frá því að bilun hafi verið á hraða- og hæðarmælum vélarinnar í síðustu fjórum ferðum hennar en eins og fram hefur komið var vélin um tveggja mánaða gömul og af gerðinni Boeing 737-MAX 8, sömu gerðar og tvær af nýjustu farþegaflugvélum Icelandair.
Spurningar hafa vaknað um öryggi vélanna eftir að svo nýleg flugvél fórst. Þjálfunarstjóri Icelandair segir að ef um alvarlega bilun væri að ræða væru flugmálayfirvöld búin að kyrrsetja vélar um allan heim. Hraði flugvéla er mældur í gegnum í gegnum loftið og eru gögnin sótt í gegnum rör eða mæli á vélinni en ekki er notast við mælingar við jörð. Í gegnum þessa mæla er áríðandi að réttur hraði sjáist á skjám, einfaldlega svo hægt sé að fljúga flugvélinni.

Þórarinn segir að í handbókum og leiðbeiningum um vélarnar sé alveg skýrt hvernig bregaðst skuli við, komi slíkar aðstæður upp, og til að árétta það sendi flugvélaframleiðandinn öllum þeim flugfélögum sem fljúga 737-MAX vélum leiðbeiningar þess efnis.
„Í þessum tilfellum þegar þetta gerist, þá er stóra málið og lykillinn að sleppa frá þessu að setja ákveðið aðfallshorn á flugvélina og ákveðið afl á mótorana sem eru atriði sem við þurfum bara að muna, við erum í raun að taka alla sjálfstýringu út og síðan þurfum við bara að fara í bækur og við gætum þurft að fara inn og lenda eftir töflum, sem er þá bara afl og aðfallshorn,“ segir Þórarinn.