„Í skrúðreiðinni voru fjörutíu hestar. Þá sat meðal annars fólk sem er útskrifað úr hestafræðum frá Hólum og úr sambærilegum dönskum skóla. Það klæddist mismunandi jökkum eftir því hvorum hópnum það tilheyrði, Hólafólk var í bláum jökkum og hinir í rauðum,“ lýsir Stefanía. „Reiðin tók um klukkutíma og það voru samstarfsráðherrar Danmerkur og Íslands sem leiddu hana, þau Eva Kjer Hansen og Sigurður Ingi Jóhannsson.“

„Sendiráð Íslands er til húsa á Norðurbryggju og hér var fjölbreytt dagskrá um alla bryggju sem tengist íslenska hestinum og íslenskri menningu. Hafnarbræður og Dóttir, tveir af fimm kórum Íslendinga hér í Kaupmannahöfn, tóku á móti hópreiðinni með söng. Þar hljómuðu lög eins og Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn. Gestir fengu að klappa hestunum, ráðherrarnir fluttu ræður og Kristinn Hugason frá Sögusetri íslenska hestsins var með sýningu sem nefnist Uppruni kostanna og fjallar um sögu hrossaræktarinnar. Svo voru íslenskar veitingar bæði í sendiráðinu og á Norðurbryggju, kórarnir seldu íslenska kjötsúpu sem sló í gegn, nýsteiktar kleinur voru á borðum og Matthías Finns Karlsson bakaði 600 pönnukökur á tveimur tímum, geri aðrir betur!“

„Við vorum tilbúin að fara með hátíðahöldin inn en þau voru öll utan dyra af því veðrið var svo gott.“
Danir hafa gert fullveldisafmæli Íslands hátt undir höfði, að sögn Stefaníu. „Það er búið að vera mikið um hátíðahöld og viðburði sem tengjast Íslandi í skólum, bókasöfnum, listasöfnum og hvar sem er. Ég held að sendiráðið sé búið að taka þátt í og standa fyrir 54 menningarhátíðum á árinu. Hestamenn leituðu fyrir ári til sendiráðsins í fyrrahaust og spurðu hvort við værum til í að halda hátíð með þeim. Nú er hún afstaðin og tókst afar vel,“ segir hún ánægjuleg og bætir við: „Það er nú svo að hér í Danmörku fæðast fleiri folöld undan íslenska hestastofninum en þeim danska, íslenski hesturinn er svo vinsæll hér.“