Menning

Einn heitasti lista­maður landsins heldur þræði

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Loji Höskuldsson er hönnuður Kærleikskúlunnar.
Loji Höskuldsson er hönnuður Kærleikskúlunnar. Vísir/Vilhelm

Kærleikskúlan hefur í 22 ár verið órjúfanlegur hluti af jólahefð margra en í byrjun desember á hverju ári er staðið að útgáfu til styrktar Gló stuðningsfélags. Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals sem félagið á og rekur.

Kærleikskúlan 2025 var formlega afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í dag og stendur sala hennar til 23. desember. 

Halda þræði eftir Loja Höskuldsson er Kærleikskúla ársins 2025 en verk Loja, sem fæddur er árið 1987, eru mjög svo eftirsótt.

Loji Höskuldsson er þekktur fyrir frumleg útsaumsverk sem bera með sér sakleysislegan húmor og milda nostalgíu. Hann sameinar hefðbundnar og tilraunakenndar aðferðir í hægfara handverksferli og sækir viðfangsefni sín í hversdagsleikann.

Loji Höskuldsson er hönnuður Kærleikskúlunnar.Aðsend

Í fréttatilkynningu segir:

„Gló Stuðningsfélag, áður Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, hefur staðið að útgáfu Kærleikskúlunnar frá árinu 2003. 

Kærleikskúlan sem gefin er út í takmörkuðu upplagi hefur fengið frábærar viðtökur landsmanna í gegnum árin og er árleg útgáfa hennar orðin hluti af jólahefð margra. 

Tilgangurinn með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna, með því að efla starfsemi Reykjadals sem félagið á og rekur.

Reykjadalur hefur frá 1963 verið vettvangur tómstunda og vináttu fyrir fötluð börn og ungmenni. Sumarbúðirnar voru stofnaðar af félaginu sem svar við brýnni þörf um tækifæri fatlaðra barna til þátttöku og hafa í gegnum árin þróast og eflst og gestahópurinn stækkað og orðið fjölbreyttari.

Markmið Reykjadals er að bjóða uppá uppbyggjandi og jákvæða upplifun þar sem hver og einn fær að njóta sín á eigin forsendum. Áhersla er lögð á að styrkja og stuðla að vinatengslum með því að skapa ævintýri og skemmtilegan frítíma. Kraftmikið starfsfólk gerir hverja dvöl einstaka og ógleymanlega.“

Hér má lesa texta listamannsins um kúluna sem heitir Halda þræði:

„Eini endinn sem gefur eftir er yst, en hinn liggur í hjarta hnykilsins og er aðeins aðgengilegur með því að vefja sig í gegnum allt ferðalagið. 

Markmið ferðalagsins er að forðast flækjur en þær eru þó nánast óumflýjanlegar, sérstaklega ef maður tapar þræðinum á leiðinni.

Ferðalag hvers hnykils er einstakt, því enginn vefur sinn hnykil á nákvæmlega sama hátt. Það sem fyrir einum virðist auðvelt, getur reynst öðrum snúið. Ferðalagið krefst þolinmæði og elju, það er ekki ætlað þeim sem vilja skjót svör eða styttri leiðir.

Ólíkt daglegu amstri, þar sem athyglin slitnar í allar áttir, býður hnykillinn aðeins einn lausan enda. Sá endi er stöðug uppspretta hlýju, hugmynda og möguleika. Það er þar sem allt byrjar.“

Hér má nálgast nánari upplýsingar um Kærleikskúluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.