Sport

Langur undirbúningur en spenntur að keppa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valgarð á æfingu í Katar
Valgarð á æfingu í Katar mynd/fimleikasamband íslands
Valgarð Reinhardsson er einn þriggja Íslendinga sem keppir á HM í áhaldafimleikum í Doha í Katar í dag. Valgarð segir undirbúninginn hafa verið langan og hitinn í Katar sé erfiður.

„Markmiðin í dag eru að gera okkar besta og sjá hvert það kemur okkur,“ sagði Valgarð í viðtali við Fimleikasamband Íslands. Íslendingarnir hefja leik klukkan 14:00 að íslenskum tíma.

„Það er búið að vera mjög langur undirbúningur og mörg mót. Maður er svolítið þreyttur í líkamanum en bara spenntur að keppa.“

Stærstu nöfn fimleikaheimsins eru á meðal keppenda og segir Valgarð að það sé vottur af stjörnum í augunum að sjá þessa stærstu keppendur.

„Það er mjög gaman að horfa á hina keppa. Við erum í holli með ekkert allt of stórum löndum, svo eftir að við keppum þá fáum við kannski að sjá stærri löndin.“

Hitinn í Katar er mikill og Valgarð segir það hafa verið erfitt að æfa í hitanum.

„Það þarf bara að muna að drekka nógu mikið af vatni til að halda sér í góðu standi. Það tók svona tvo, þrjá daga að venjast.“

Valgarð keppir ásamt Eyþóri Erni Baldurssyni og Jóni Sigurði Gunnarssyni fyrir Íslands hönd. Valgarð komst í sumar í úrslit í stökki á EM í Glasgow, fyrstur Íslendinga, þar sem hann lenti í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×