Breki Karlsson er nýr formaður Neytendasamtakanna en tilkynnt var um úrslit formanns- og stjórnarkosninga á þingi samtakanna laust eftir klukkan 13 í dag.
Fjórir voru í framboði og hlaut Breki 228 atkvæði af 439, eða 53 prósent atkvæða. Atkvæði annarra formannsframbjóðenda skiptust svo: Ásthildur Lóa Þórsdóttir hlaut 80 atkvæði eða 19 prósent, Guðjón Sigurbjartsson hlaut 29 atkvæði eða 7 prósent og Unnur Rán Reynisdóttir hlaut 88 eða 21 prósent.
Breki hefur undanfarin ár unnið að neytendamálum sem forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.
Neytendasamtökin höfðu verið án formanns frá því Ólafur Arnarson sagði af sér formennsku 10. júlí í fyrra eftir stutta og stormasama formannstíð.
