Ísland hefur ekki skrifað undir samkomulag um þátttöku í samnorrænu lyfjaútboði sem á að fara fram í byrjun árs. Lyfjafyrirtæki lýstu yfir áhyggjum af aðild Íslands að útboðinu á sameiginlegum fundi með mögulegum aðildarríkjum í lok síðasta mánaðar. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að ná niður kostnaðinum við lyfjakaup.
Undirbúningsvinna vegna hins sameiginlega lyfjaútboðs hefur verið á hendi Amgros í samvinnu við stjórnvöld og stofnanir landanna.
Völdum tilboðsgjöfum var boðið á kynninguna sem var haldin í Danmörku þann 28. september síðastliðinn. Að henni lokinni gafst tækifæri til umræðna um útboðskröfur, markaðsleyfi og afhendingu lyfja.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins komu fram á fundinum áhyggjur og óánægja tilboðsgjafanna með að Ísland verði mögulegur aðili að útboðinu og þá hvernig Ísland gæti verið aðili. Fyrirtækin hafa áhyggjur af því að hér á landi geti ekki verið til samkeppnismarkaður um lyf vegna smæðar markaðarins samanborið við markaðinn í Danmörku og Noregi sem séu margfalt stærri.
„Það er mikilvægt fyrir Ísland og Norðurlöndin að finna leiðir til að standa saman í þessum efnum. Þetta er mikilvægt hagsmunamál fyrir notendur heilbrigðiskerfa á Norðurlöndum,“ segir Svandís.
Eins og staðan er núna hafa aðeins Noregur og Danmörk skrifað undir samkomulag um að taka þátt í þessu sameiginlega útboði. Íslendingar og Svíar hafa ekki gert það.
„Mér er ekki ljóst nákvæmlega hvernig það bar að, en þessu samtali er ekki lokið og samskipti ríkjanna eru enn í gangi. Við höfum verið í þessum samstarfshópi um árabil og það er bara ekki að fullu til lykta leitt,“ segir Svandís
Hún segir viljann vera einnig til staðar á Norðurlöndum með aðkomu Íslands að verkefninu. Fréttablaðið hefur einnig staðfest vilja bæði heilbrigðisráðherra Norðmanna og Dana til þess að Ísland verði hluti af útboðinu.

