Flugvélar félagsins, sem voru á leið til Porto í Portúgal, neyddust til að lenda í Malaga sökum veðurs. Tuttugu og fjórir áhafnarmeðlimir voru því fastir á flugvellinum.
Mynd af fólkinu, sem sýnir það sofandi á gólfinu, hefur vakið töluverða athygli á Internetinu en portúgalska stéttarfélagið SNPVAC heldur því fram að starfsmönnunum hafi ekki staðið betri aðstaða til boða, auk þess sem þeir fengu hvorki vott né þurrt á meðan dvölinni stóð.
Talsmenn Ryanair fullyrða hins vegar að myndin sé sviðsett og að áhafnarmeðlimirnir hafi aðeins dvalið stuttan tíma í herberginu áður en þeir voru færðir yfir í viðhafnarsetustofu á flugvellinum. Þetta hafi verið gert sökum þess að umræddur dagur hafi verið lögbundinn frídagur á Spáni og öll hótel uppbókuð. Í yfirlýsingu flugfélagsins segir einnig að starfsfólkið hafi ekki verið sent til vinnu daginn eftir.
Myndinni var fyrst deilt á Twitter, þar sem hún vakti hörð viðbrögð og hneykslan netverja en þeir settu margir út á meðferð flugfélagsins á starfsmönnum sínum. Þá var myndin einnig birt á vefsíðunni Reddit, þar sem hið sama var uppi á teningnum.
This is a Ryanair 737 crew based in Portugal, stranded in Malaga, Spain a couple of nights ago due to storms. They are sleeping on the floor of the Ryanair crew room. RYR is earning €1.25 billion this year but will not put stranded crews in a hotel for the night. @peterbellew ? pic.twitter.com/lILWZVqqGj
— Jim Atkinson (@Jimbaba) October 14, 2018