365 miðlar hafa selt allan hlut sinn í Sýn, tæplega 11 prósenta hlut, fyrir tæpa tvo milljarða króna og keypt ríflega þriggja prósenta hlut í Högum fyrir hátt í 1,8 milljarða króna. Gengið var frá viðskiptunum í morgun að því er Fréttablaðið greinir frá og vísar í heimildir.
Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eiga um 90 prósenta hlut í 365 miðlum hf. sem aftur eiga Torg ehf, útgáfufélag Fréttablaðsins. Ingibjörg er forstjóri 365 miðla en Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, hefur tekið virkan þátt í rekstrinum undanfarin ár.
365 miðlar eignuðust hlut sinn í Sýn þegar að Sýn keypti stærstan hluta 365 miðla, að undanskildu Fréttablaðinu og tískutímaritinu Glamour í fyrra. Samkeppniseftirlitið setti Ingibjörgu þau skilyrði að hún yrði innan tiltekins tíma að selja hlut sinn í Sýn eða Torgi.
Hjónin fengu á dögunum Kviku banka til að kanna áhuga mögulegra kaupenda á Fréttablaðinu. Nú, tæpum tveimur vikum síðar, hafa þau samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, ákveðið að selja hlut sinn í Sýn.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins seldi Ingibjörg 32.380 þúsund hluti í Sýn á genginu 61,5 krónur á hlut fyrir um 1.991 milljón króna. Þá keypti hún 36.900 þúsund hluti í Högum - ríflega þriggja prósenta hlut - á genginu 47,5 krónur á hlut. Nam kaupverðið þannig 1.753 milljónum króna.
Félög tengd Ingibjörgu áttu fyrir yfir tveggja prósenta hlut í Högum, einkum í gegnum fjármögnun hjá Kviku, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.
Viðskiptin hafa ekki verið tilkynnt til Kauphallarinnar þegar þetta er skrifað. Hins vegar má sjá að viðskipti með bréf í Sýn námu í morgun rúmum tveimur milljörðum króna en viðskiptum með bréf tæplega 1,9 milljörðum króna.
Vísir er í eigu Sýnar.

