Ólafur Valsson dýralæknir var búinn að reka verslunina í tæpt ár en tilkynnti íbúum í síðustu viku að henni yrði lokað.
„Það er enn eitt áfallið,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps.
„Að vísu er þetta ekkert komið mikið í hámæli en ég er samt búin að fá fyrirspurn um búðina. Þannig að við erum nú ekki alveg heillum horfin.“

„Það er náttúrlega orðið svo fátt fólk hérna að það er ekki hægt að setja á stofn nýtt fyrirtæki til að þjóna þessu, eins og með verslun. Það er bara sannleikurinn í því,“ segir Gunnsteinn Gíslason, sem var oddviti og kaupfélagsstjóri í yfir þrjátíu ár.
Í Árneshreppi er staðan þó erfiðari en hjá flestum öðrum því úr Norðurfirði eru um eitthundrað kílómetrar í næstu verslun, á Drangsnesi eða Hólmavík. Þá er vegurinn svo slæmur að Vegagerðin heldur ekki uppi snjómokstri yfir háveturinn.
En hvernig verður þá með aðdrætti fyrir íbúana í vetur að sækja sér matvörur?
„Einhverntímann fóru menn gangandi yfir fjöll,“ svarar Gunnsteinn kíminn.
„Ég held að það takist í sjálfu sér. Það er flogið á veturna og opið í Hólmavík. En þetta er bara slæm staða,“ segir Gunnsteinn.
Hreppsnefnd Árneshrepps hefur í bréfi til íbúa meðal annars viðrað þann möguleika að semja við verslanir í Reykjavík um að senda vörur með flugi.

Það er eitthvað sem við þurfum líka að kynna okkur og vita hvað hefur virkað hjá þeim, til þess að við þurfum ekki að vera að finna upp hjólið. Og við ætlum bara að gera það núna í rólegheitum. Vonandi tekst okkur bara að panta vörur á meðan. Það er enginn vandi í sjálfu sér, sko,“ segir Eva.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: