Árið 1995 töldu 1,9 prósent 15 ára ungmenna hér á landi enga eða litla áhættu fylgja reglulegri kannabisneyslu. Í síðustu rannsókn, sem lögð var fyrir árið 2015, hækkaði hlutfallið í 10,7 prósent. Að sama skapi töldu níu af hverjum tíu ungmennum mikla hættu stafa af reglulegum kannabisreykingum um miðjan tíunda áratuginn. Jafnaldrar þeirra nú sem telja mikla hættu af kannabisreykingum eru aðeins sjö af hverjum tíu.

Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir á geðsviði Landspítala, segir óhætt að fullyrða að regluleg kannabisneysla sé afar skaðleg. „Allar vandaðar rannsóknir benda til þess að regluleg kannabisneysla unglinga hafi slæm áhrif á heilsu þeirra,“ segir Engilbert. „Sér í lagi getur neyslan haft afar slæm áhrif á ungt fólk þar sem saga er um geðsjúkdóma meðal náinna ættingja.“
Ársæll segir samskipti ungmenna við foreldra skipta gríðarlega miklu máli.
„Samskipti barna og foreldra á Íslandi eru mjög góð og hafa farið batnandi. Sterk tengsl eru milli jákvæðra samskipta milli foreldra og barna og minni notkunar á vímugjöfum.“