Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata, hefur sætt nokkurri gagnrýni eftir að hann lét það hafa eftir sér í viðtali á sænsku útvarpsstöðinni P3, sem er ríkisrekin, að hann hefði löngu verið búinn að leggja stöðina niður ef hann hefði verið við stjórnvölinn.
Åkesson mætti fyrr í vikunni í þátt á stöðinni þar sem leiðtogi einhvers stjórnmálaflokks er tekinn tali. Þættirnir hefjast hins vegar á innslagi þar sem þáttastjórnendur hæðast að viðmælandanum.
Í innslaginu var Åkesson meðal annars kallaður landráðamaður og spilafíkill, en árið 2014 greindu sænskir fjölmiðlar frá því að Åkesson hafi veðjað um hálfa milljón sænskra króna í fjárhættuspilum á netinu það árið.
Eftir innslagið kallaði Åkesson útvarpsstöðina „skítastöð“. „Hefði ég verið yfirmaður hefði ég látið loka stöðinni fyrir löngu. Mér finnst þetta hreinræktuð vinstrisinnuð drulla,“ sagði Åkesson í viðtalinu.
Minnir á fjórða áratuginn
Fjölmargir sænskir stjórnmálamenn hafa gagnrýnt Åkesson vegna ummælanna, meðal annars dómsmálaráðherrann Morgan Johansson. „[Svíþjóðardemókratar] vilja sem sagt leggja niður útvarpsstöð af pólitískum ástæðum. Það minnir mjög á fjórða áratug síðustu aldar,“ sagði Johansson á Twitter.
Åkesson sagði síðar að hann vilji alls ekki leggja niður útvarpsstöðina. Hann sé þó áfram gagnrýninn á háðsádeilu stöðvarinnar. „Mér fannst brotið á mér. Þetta var virkilega lélegt. Ríkisfjölmiðlar eiga alls ekki að stunda þetta,“ sagði Åkesson síðar í samtali við sænska fjölmiðla.
Kosningar fara fram í Svíþjóð á sunnudaginn 9. september næstkomandi.
