Laugardalshöllin hefur verið á undanþágu í mörg ár, bæði frá EHF og FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandinu. Höllin var vígð 1965 og er meðal þeirra elstu í Evrópu.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, hefur ekki áhyggjur af því að EHF felli undanþágu Íslands úr gildi í undankeppni EM 2020 en það muni gerast á endanum, fái Íslendingar ekki nýja keppnishöll. Kröfurnar frá EHF séu alltaf að aukast og sambandið sé byrjað að grípa til aðgerða, eins og í tilfelli Færeyinga.
„Eftir að hafa rætt við EHF tel ég að við fáum undanþágu til að spila heimaleikina í næstu undankeppni í Laugardalshöll. Við erum nánast öruggir með það. Hins vegar er ljóst að við erum á undanþágu og eðli þeirra er að einhvern tímann verða þær felldar úr gildi,“ sagði Róbert í samtali við Fréttablaðið.
Þrátt fyrir ástandið liggur ekkert fyrir hvenær, eða hvort, ný keppnishöll, sem uppfyllir alla staðla EHF og FIBA, verður reist. Þau mál þokast áfram á hraða snigilsins.
„Við höfum óskað eftir viðræðum við ríki og borg um nýjan þjóðarleikvang en ekki fengið mikil viðbrögð. Í vor stóð til að stofna samráðshóp ríkis, borgar, HSÍ og KKÍ en það hefur ekki verið skipað í hann enn,“ sagði Róbert.
Ný keppnishöll myndi líka leysa vandamál landsliðanna þegar kemur að æfingatímum. Í dag eru þau komin upp á náð og miskunn aðildarfélaganna hvort þau séu tilbúin að hýsa landsliðsæfingar.
„Ákjósanlegast væri ef nýja höllin yrði líka æfingahöll. Oft á tíðum erum við að æfa hingað og þangað um bæinn. Það er ekki kjörstaða fyrir lið sem eru að berjast um að ná árangri á stórmótum,“ sagði Róbert að lokum.